„Draumaliðið“ kynnt til leiks

Efstu menn á listanna við undirskrift samningsins í dag. Frá …
Efstu menn á listanna við undirskrift samningsins í dag. Frá vinstri: Sigríður Huld Jónsdóttir og Logi Már Einarsson, Samfylkingu, Framsóknarmennirnir Ingibjörg Isaksen og Guðmundur Baldvin Guðmundsson og fulltrúar L-listans, Silja Dögg Baldursdóttir og Matthías Rögnvaldsson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Nýr meirihluti í bæjarstjórn Akureyrar var kynntur í dag eftir að bæjarfulltrúar Framsóknarflokks, L-listans og Samfylkingarinnar náðu samkomulagi um samstarf næstu fjögur árin. Eiríkur Björn Björgvinsson verður áfram bæjarstjóri. Matthías Rögnvaldsson oddviti L-lista verður forseti bæjarstjórnar, framsóknarmaðurinn Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður bæjarráðs og Logi Már Einarsson oddviti Samfylkingarinnar formaður stjórnar Akureyrarstofu sem fær aukið hlutverk frá því sem verið hefur.

Skrifað var undir samstarfssamning í sól og blíðu sunnanundir menningarhúsinu Hofi síðdegis í dag.

„Draumaliðið,“ eins og Logi Már Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar, kallaði hópinn í samtali við blaðamann Morgunblaðsins á kosninganótt, er því orðið að veruleika.

Oddvitarnir þrír, Matthías, Logi Már og Guðmundur Baldvin, lögðu á það áherslu þegar þeir settust niður með blaðamanni mbl.is í dag, að ekki hefði verið „slegist“ um titla í samningaviðræðunum heldur mikil áhersla lögð á að velja í embætti og formennsku nefnda þá einstaklinga sem hæfastir væru í hvert hlutverk fyrir sig.

Í tilkynningu frá framboðunum þremur segir meðal annars, og vekur nokkra athygli í ljósi umræðu hér á landi að undanförnu: „Við leggjum áherslu á félagslegt réttlæti og viljum berjast fyrir því allir njóti mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Þetta ætlum við að hafa að leiðarljósi í öllum okkar störfum.“

Jafnframt segir:

„Við viljum virkja íbúa til lýðræðislegrar þátttöku og gera stjórnsýsluna skilvirkari m.a. með aukinni rafrænni stjórnsýslu, einfaldari og skýrari verkferlum og virkara samtali við bæjarbúa.

Lögð verður aukin áhersla á langtíma áætlanagerð um örugga og ábyrga fjármálastjórn og forgangsröðun verkefna. Við viljum auka fjölbreytni atvinnulífsins og munum beita okkur fyrir frekari samvinnu skóla og atvinnulífs. Þá ætlum við að bæta samstarf og samráð við starfsfólk sveitarfélagsins, fjölga tækifærum til starfsþróunar og öðrum leiðum sem efla þá í starfi.

Við teljum nauðsynlegt að auka fjármagn til uppbyggingar skóla og velferðarmála og við fjárhagsáætlanagerð munum við miða að því að styrkja þessa þætti rekstursins ásamt því að jafna stöðu bæjarbúa.

Bæjarfélag sem býr yfir fjölbreyttu atvinnulífi, góðum skólum, líflegri menningu og öflugu íþróttalífi er líklegt til að laða að sér nýtt fólk og halda í þann mannauð sem fyrir er. Við ætlum að leggja okkar af mörkum til að Akureyri megi áfram styrkjast og dafna.“

Formennska í nokkrum nefndum verður sem hér segir

  • Forseti bæjarstjórnar – L-listinn, Matthías Rögnvaldsson
  • Formaður bæjaráðs – Framsóknarflokkurinn, Guðmundur Baldvin Guðmundsson
  • Félagsmálaráð – Samfylkingin, Sigríður Huld Jónsdóttir
  • Skólanefnd – Samfylkingin, Bjarki Ármann Oddsson
  • Stjórn Akureyrarstofu – Samfylkingin, Logi Már Einarsson
  • Umhverfisnefnd – Samfylkingin
  • Framkvæmdaráð – L-listinn
  • Samfélags- og mannréttindaráð – L-listinn
  • Íþróttaráð – Framsóknarflokkurinn, Ingibjörg Isaksen
  • Skipulagsnefnd – Framsóknarflokkurinn, Tryggvi Már Ingvarsson

Nánari upplýsingar um nefndir og ráð koma fram á fyrsta bæjarstjórnarfundi þann 18. júní næstkomandi. Þá verður samstarfssamningur flokkanna mun vera lagður fram í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert