Bryndís þarf lengri umhugsunarfrest

Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari ætlar að hugsa sig um fram yfir …
Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari ætlar að hugsa sig um fram yfir páska hvort hún bjóði sig fram til embættis forseta Íslands. Jón Baldvin Halldórsson

Bryn­dís Hlöðvers­dótt­ir rík­is­sátta­semj­ari ætlar að taka sér lengri umhugsunarfrest áður en hún tilkynnir hvort hún muni bjóði sig fram til embætt­is for­seta Íslands.

Bryndís sagði í samtali við mbl.is í síðustu viku að stefnan væri að taka ákvörðun fyrir páska, en nú hefur hún ákveðið að nýta páskana til að hugsa sig um, enda sé um stóra ákvörðun að ræða.

„Ég þarf að velta þessu lengur fyrir mér og ætla að leyfa mér að hugsa þetta eitthvað áfram,“ sagði Bryndís í samtali við mbl.is fyrr í dag. 

„Þetta er stór ákvörðun og margt sem maður tekur inn í þá breytu, eitt af því er að ég er mjög ánægð í mínu starfi.“ Bryndís hefur gegnt stöðu ríkissáttasemjara í 9 mánuði.

Guðlaugur Þorvaldsson, þáverandi ríkissáttasemjari, laut naumlega í lægra haldi fyrir Vigdísi Finnbogadóttur í forsetakosningunum árið 1980. Aðspurð hvort sú staðreynd að ríkissáttasemjari hafi áður boðið sig fram til embættis forseta Íslands hafi áhrif á hennar ákvörðun segir Bryndís svo ekki vera. „Ég held að það starf sem maður gegni skipti ekki öllu máli.“

Ekki er langur tími síðan Bryndís hóf að hugsa um að bjóða sig fram. „Ég hef hugsað um forsetaembættið af alvöru í um það bil tvær vikur og þarf því lengri umhugsunarfrest.“

Bryndís segist hafa fundið fyrir miklum stuðningi og hvatningu á meðan hún hugsar sig um, sem henni þykir afar vænt um. „En ákvörðunin er á endanum persónuleg. Það getur enginn annar sagt manni nema maður sjálfur hvort þetta er það sem maður vill gera.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert