Einar K. hættir eftir kjörtímabilið

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, hættir á þingi eftir þetta …
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, hættir á þingi eftir þetta kjörtímabil. mbl.is/Ómar

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, ætlar ekki að leita endurkjörs í næstu þingkosningum. Frá þessu greindi hann á Facebook-síðu sinni fyrir skemmstu.

Hann segir þar að á undanförnum dögum og vikum hafi hann verið hvattur til að gefa kost á sér til endurkjörs. Það hafi ekki breytt afstöðu hans þó honum þykki vænt um þann hlýhug og traust sem býr að baki slíkum óskum.

Einar, sem er annar þingmaður Norðvesturkjördæmis, var fyrst kjörinn á þing í Alþingiskosningum hinn 20. apríl 1991 og eru því um 25 ár liðin frá því að hann tók fyrst sæti sem aðalmaður á þingi. 

„25 ár eru drjúgur tími í starfsævi hvers manns. Tíu sinnum hef ég tekið þátt í kosningabaráttu í sæti þingmanns eða varaþingmanns. Því tel ég tímabært að láta nótt sem nemur og gefa ekki kost á mér til endurkjörs,“ skrifar hann.

Ekki á leið í forsetaframboð

Spurður hvort hann sé á leið í forsetaframboð segir Einar í samtali við mbl.is að fólk hafi komið að máli við sig og hvatt hann til þess, en hann ætli ekki að láta slag standa. „Ég held að það sé ágætt að ljúka þeim hluta af ævi minni,“ segir hann um afskipti sín af pólitík.

Sjálfstæðisflokkurinn er undir forystu góðs, trausts og öflugs fólks. Miklu hefur verið komið í verk á síðustu árum og grundvöllur lagður að góðri framtíð á Íslandi. Forsendur Sjálfstæðisflokksins til góðs árangurs á komandi mánuðum eru því sannarlega fyrir hendi. Mælingar sýna sömuleiðis að staða Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi er sterk, sem er ánægjulegt og hvetjandi á alla lund,“ skrifar hann.

Einar, sem verður í desember 61 árs, segist ekki vita hvað nýir tímar beri í skauti sér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert