Ferill Ólafs Ragnars í myndum

Það hefur margt drifið á daga Ólafs Ragnars Grímssonar síðustu áratugina. Nú þegar hann hefur hætt við að hætta sem forseti, og sækjast eftir endurkjöri í sjötta sinn, er ekki úr vegi að stikla á stóru í lífshlaupi Ólafs.

Þá kemur myndasafn Morgunblaðsins í góðar þarfir en þar má, skiljanlega, finna hundruð mynda af Ólafi. Í meðfylgjandi myndskeiði er rennt yfir feril Ólafs, allt frá því hann hóf afskipti af stjórnmálum og þar til hann ákvað að hætta við að hætta.

Fjölbreyttur ferill forsetans

Ólaf­ur Ragn­ar var fyrst kjör­inn for­seti lýðveld­is­ins árið 1996 og hef­ur því gegnt embætt­inu í tvo ára­tugi. Fyr­ir þann tíma var átti hann að baki fer­il í stjórn­mál­um sem bæði þingmaður og ráðherra. Ólaf­ur fædd­ist 14. maí árið 1943 á Ísaf­irði, son­ur hjón­anna Gríms Krist­geirs­son­ar og Svan­hild­ar Ólafs­dótt­ur Hjart­ar. Hann stundaði nám við MR og síðan Há­skól­ann í Manchester á Englandi þaðan sem hann lauk doktors­prófi 1970.

Fyrstu af­skipti Ólafs Ragn­ars af stjórn­mál­um voru inn­an Fram­sókn­ar­flokks­ins. Hann sat þannig til að mynda í miðstjórn flokks­ins 1967-1974 og í fram­kvæmda­stjórn hans 1969-1973. Þaðan fór Ólaf­ur yfir í Sam­tök frjáls­lyndra og vinstri manna og var formaður fram­kvæmda­stjórn­ar flokks­ins 1974–1976 og loks til Alþýðubanda­lags­ins þar sem hann sat í miðstjórn og fram­kvæmda­stjórn frá 1977. Hann var formaður flokks­ins 1987–1995.

Ólaf­ur Ragn­ar var fyrst kjör­inn á Alþingi árið 1978 fyr­ir Alþýðubanda­lagið fyr­ir Reykja­vík og sat til 1983. Ólaf­ur var aft­ur kjör­inn á þing 1991 sem þingmaður Reykja­ness og sat til 1996 þegar hann lét af þing­mennsku eft­ir að hafa verið kjör­inn for­seti. Ólaf­ur var fjár­málaráðherra 1988–1991 í rík­is­stjórn­um und­ir for­sæti Stein­gríms Her­manns­son­ar, þáver­andi for­manns Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Ólaf­ur Ragn­ar var fyrsti pró­fess­or Há­skóla Íslands í stjórn­mála­fræði en hann gegndi þeirri stöðu frá 1973-1993. Áður var hann lektor í stjórn­mála­fræði við skól­ann frá 1970-1973. Hann kvænt­ist Guðrúnu Katrínu Þor­bergs­dótt­ur árið 1974 en hún lést árið 1998. Sam­an áttu þau dæt­urn­ar Döllu og Guðrúnu Tinnu. Árið 2003 gekk hann að eiga nú­ver­andi eig­in­konu sína Dor­rit Moussai­eff.

Ólaf­ur þótti um­deild­ur sem fjár­málaráðherra en hann gegndi því embætti þegar ástandið í efna­hags­mál­um þjóðar­inn­ar var ískyggi­legt. Var hann af þeim sök­um til að mynda sýnd­ur í gervi Leður­blöku­manns­ins (Batman) í ára­móta­s­kaup­inu 1989 und­ir nafn­inu Skatt­mann. Með til­komu Viðeyj­ar­stjórn­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins og Alþýðuflokks­ins 1991 lenti Ólaf­ur og Alþýðubanda­lagið í stjórn­ar­and­stöðu og heyrðist þá viðkvæðið „Við alþýðubanda­lags­menn...“ einatt í ræðum hans á Alþingi sem Spaug­stof­an notaði síðan óspart þegar Pálmi Gests­son brá sér í gervi Ólafs.

Þegar Ólaf­ur Ragn­ar bauð sig fram í for­seta­kosn­ing­un­um 1996 voru birt­ar heilsíðuaug­lýs­ing­ar í dag­blöðum gegn hon­um þar sem hann var gagn­rýnd­ur fyr­ir verk sín sem fjár­málaráðherra. Þær virt­ust þó ekki hafa mik­il áhrif en Ólaf­ur sigraði í kosn­ing­un­um með 41,4% at­kvæða. Pét­ur Kr. Haf­stein hlaut 29,5%, Guðrún Agn­ars­dótt­ir 26,4% og Ástþór Magnús­son 2,7%.

Ólaf­ur sagði meðal ann­ars aðspurður í kosn­inga­bar­átt­unni að hann teldi 2-3 kjör­tíma­bil hæfi­lega lang­an tíma fyr­ir for­seta í heimi hraðra breyt­inga nyti hann stuðnings til þess. Sex­tán ár væru lang­ur tími þó bæði Vig­dís Finn­boga­dótt­ir og Ásgeir Ásgeirs­son hefðu setið svo lengi. Ekki mætti þó gleyma því að þjóðin hefði stutt Vig­dísi til svo langr­ar embætt­is­setu og hefði ef­laust stutt hana leng­ur hefði vilji henn­ar staðið til þess.

Ólaf­ur Ragn­ar þótti fljót­lega gera for­seta­embættið póli­tísk­ara en það hafði að minnsta kosti verið áður bæði í tíð Vig­dís­ar Finn­boga­dótt­ur og Kristjáns Eld­járns. Þetta þótti mörg­um ná ákveðnu há­marki þegar hann neitaði að und­ir­rita lög um fjöl­miðla árið 2004. Var þar með svo­nefnd­ur mál­skots­rétt­ur for­set­ans virkjaður í fyrsta sinn og átti málið í fram­hald­inu að fara í þjóðar­at­kvæði en rík­is­stjórn­in dró það áður til baka. Urðu mikl­ar umræður um það hvort for­set­inn hefði raun­veru­lega rétt á því án aðkomu ráðherra að neita að und­ir­rita lög frá Alþingi.

Þegar út­rás ís­lenskra fyr­ir­tækja stóð sem hæst var Ólaf­ur gagn­rýnd­ur tals­vert fyr­ir að veita slík­um fyr­ir­tækj­um full mik­inn stuðning. Var hann fyr­ir vikið af sum­um kallaður klapp­stýra út­rás­ar­vík­ing­anna. Sú gagn­rýni varð þó mest eft­ir fall ís­lensku bank­anna haustið 2008. Ólaf­ur Ragn­ar átti síðan eft­ir að leika lyk­il­hlut­verk í Ices­a­ve-mál­inu og vísaði hann tvisvar lög­um frá Alþingi um samn­inga við bresk og hol­lensk stjórn­völd í þjóðar­at­kvæði þar sem samn­ingn­um var hafnað. Þá talaði hann ít­rekað við er­lenda fjöl­miðla þar sem hann varði þær niður­stöður.

Þegar líða fór að for­seta­kosn­ing­un­um 2012 veltu marg­ir fyr­ir sér hvort Ólaf­ur myndi láta af embætti eða gefa áfram kost á sér. Þá hafði hann setið í 16 ár í embætti eða jafn­lengi og þeir for­set­ar sem lengst sátu. Í ára­móta­ávarpi sínu til­kynnt Ólaf­ur að hann ætlaði ekki að gefa áfram kost á sér en mörg­um þótti yf­ir­lýs­ing hans ekki mjög af­ger­andi í þeim efn­um. Haf­in var und­ir­skrifta­söfn­un í kjöl­farið þar sem skorað var á Ólaf að bjóða sig aft­ur fram og fór svo að hann til­kynnti að hann hefði skipt um skoðun í þess­um efn­um.

Þá höfðu meðal ann­ars Þóra Arn­órs­dótt­ir og Ari Trausti Guðmunds­son til­kynnt for­setafram­boð. Kosn­ing­arn­ar urðu að eins kon­ar ein­vígi Ólafs og Þóru og hafði hún í fyrstu meira fylgi sam­kvæmt skoðana­könn­un­um. Að lok­um fór svo að Ólaf­ur hlaut 52,7% at­kvæða og Þóra 33,16%. Ólaf­ur sagði fyr­ir kosn­ing­arn­ar að hugs­an­lega ætti hann eft­ir að hætta á miðju kjör­tíma­bili en breytta af­stöðu sína til þess að gefa áfram kost á sér rök­studdi hann með því að óvissa væri um ýmis stór mál eins og Ices­a­ve-málið og um­sókn­ina um inn­göngu í Evr­ópu­sam­bandið. Svo fór þó að Ólaf­ur sat áfram og sér nú fyr­ir end­ann á kjör­tíma­bil­inu. Hvort Ólaf­ur verður áfram for­seti er hins veg­ar í hönd­um kjós­enda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert