Guðni svolítið spennandi

Elísabet hlaut 0,7% atkvæða í kosningunum.
Elísabet hlaut 0,7% atkvæða í kosningunum. mbl.is/ Árni Sæberg

„Mér finnst þetta hafa verið bara eitt ævintýri, ævintýri lífs míns,“ segir Elísabet Jökulsdóttir, fyrrverandi forsetaframbjóðandi, í samtali við mbl.is. „Ég er búin að koma sjálfri mér á óvart og ég fór út í þetta því mig langaði að finna þennan leiðtoga í mér, því ég vissi að það byggi í mér þessi kraftur og ást til landsins.“

Davíð tilbúinn að klæðast kjól

Hún er staðráðin í að halda áfram að safna liði 18 kvenna á Bessastaði, jafnvel gætu þær orðið fleiri. „Mér fannst alveg merkilegt hvað þetta fékk góðan hljómgrunn og hjá ótrúlegasta fólki og þær náðu alveg inn þessar átján konur,“ segir Elísabet. Hún segir son sinn þó hafa minnt sig á að það væri hún ein sem væri í framboði, ekki þessar 18 konur. Það segir Elísabet hafa verið góða áminningu, enda hafi synir hennar yfirleitt rétt fyrir sér.

Hún hefur ekki fengið viðbrögð frá Davíð Oddssyni og Andra Snæ Magnasyni um hvort þeir vilji vera með í liðinu, klæddir kjól og korselett, en hún kveðst bjartsýn á að Davíð verði tilbúinn að vera með. „Davíð hélt nú á bangsa fyrir mig,“ segir Elísabet en það gerði hann í minningarskyni um barnafórnarlömb í Sýrlandsstríðinu að beiðni Elísabetar.

Fyrir fegurðina og fyrir Ísland

„En það sem gleymdist stundum fannst mér, í þessari kosningabaráttu, það eru allir alltaf að tala um málefni og málskotsrétt og allt þetta,“ segir Elísabet, „en ég gerði þetta af því ég elska þetta land.“ Hún kveðst elska sumarnóttina, strauminn í ánni og fuglasönginn enda sé það grunnurinn að okkar tilveru, það hafi afi hennar kennt henni þegar hún var lítil stúlka.

„Ég myndi segja að það eftirminnilegasta á þessu ferli er þegar ég var á Vopnafjarðaröræfum, alein að labba í þögninni,“ segir Elísabet en hún kann vel við sig í íslenskri náttúru.

„Guðni er náttúrulega svolítið spennandi af því maður veit ekkert hvaða mann hann hefur að geyma," segir Elísabet um skoðun sína á nýkjörnum forseta. Hún segir hann þó jákvæðan og hafa góða nærveru og óskar honum til hamingju með kjörið. „Hann hefur mikinn áhuga á forsetaembættinu líka þannig þetta er svona ævintýralegt líka að því leyti, forseti sem hefur áhuga á forseta verður forseti,“ segir Elísabet. „Þetta er svona forseti bara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert