Bjarni segir að kosið verði í haust

Frá Bessastöðum í dag.
Frá Bessastöðum í dag. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segist ekki sjá neitt sem geti komið í veg fyrir að kosningar verði í haust.

„Þegar við endurnýjuðum samstarf flokkanna í vor þá urðu breytingar í ríkisstjórninni og við boðuðum á sama tíma að við ætluðum að ljúka ákveðnum verkefnum og síðan ganga til kosninga. Ég sé ekki að neitt hafi breyst í þeim efnum og sé í sjálfu sér ekkert sem ætti að koma í veg fyrir það að við getum kosið seint í október, sem er dagsetning sem nefnd hefur verið oft í þessu sambandi,“ sagði Bjarni er hann mætti á ríkisráðsfund á Bessastöðum.

Vill ekki hringlandahátt

Spurður hvort ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, um að óvíst sé hvort kosningar fari fram í haust, séu ekki á skjön við það sem hann og aðrir úr ríkisstjórninni hafi sagt að undanförnu, segist hann ekki vilja dæma um það.

„En mér finnst það skipta máli eftir atburði vorsins að ekki sé mikill hringlandaháttur með þessa hluti. Ég hef lagt á það áherslu að við stöndum við það sem sagt hefur verið um þessi efni. En á sama tíma að það sé starfsfriður á Alþingi og við náum að ljúka mikilvægum verkefnum og það gekk vel í vor. Nú erum við að fara að hefja þingstörfin að nýju um miðjan ágúst og það er mjög mikið undir að það verði framgangur í þingstörfunum á þeim dögum sem þá ganga í garð," sagði Bjarni. 

Hann segir engan efa sínum huga að kosið verði í haust. „Ég veit ekki hversu oft ég á að svara þessari spurningu þannig að menn heyri það sem ég er að segja. Þetta stjórnarsamstarf var endurnýjað á þessum forsendum og það hafa engar forsendur breyst.“

Sjónarhorn Sigmundar ekkert nýtt

Spurður hvort ummæli Sigmundar Davíðs hafi komið honum á óvart, sagði hann: „Þetta er í sjálfu sér ekki nýtt fyrir mér að hann tefli fram þessu sjónarhorni. Það má segja að það séu gild rök fyrir því að ríkisstjórnin eigi að starfa út kjörtímabilið en það komu upp aðstæður og við brugðumst við því með þessum hætti," sagði hann. 

„Þetta hefur gerst áður. Þetta gerðist á kjörtímabilinu 2007-2009. Á miðju kjörtímabili sögðu menn að gerst höfðu atburðir þar sem ekki væri annað hægt en að ganga að kjörborðinu og mig minnir að það hafi verið með stuðningi Framsóknarflokksins á þeim tíma."

Gengið betur en hann þorði að vona

Bjarni segir að afskaplega vel hafi gengið að fylgja eftir helstu málum ríkisstjórnarinnar, betur en hann þorði að vona. „Okkur hefur tekist að tryggja aukinn stöðugleika, atvinnuleysi hefur verið mjög lágt, við höfum tekið á skuldavanda heimilanna þannig að eftir er tekið og ríkissjóður stendur eftir mun sterkari. Núna er tími til að líta upp, horfa til lengri tíma og gera áætlanir, til dæmis í ríkisfjármálum, um það hvernig við ætlum að nýta þessa betri stöðu til að byggja betra Ísland fyrir framtíðina.“

Aflétting hafta og málefni heimilanna

Hann vildi ekkert tjá sig um hvort mál á borð við verðtrygginguna og samfélagsbanka séu á leið í þingið í ágúst. „Framundan á haustþinginu er að ljúka málum sem eru langt komin. Við ætlum líka að afgreiða afléttingu hafta. Við höfum boðað að málefni heimilanna, þ.e. leiðir til að framlengja séreignarsparnaðarleiðinni, mögulega með því að koma með frekari útfærslu á því, verði málin sem verði lögð fyrir," sagði Bjarni.

Kjördagur ákveðinn sem fyrst 

Hann telur best að kjördagur verði ákveðinn sem fyrst.  „Ég vil að það sé stjórnfesta í þessu landi. Ég kann ekki að meta að menn séu að láta það í lausu lofti liggja um langt skeið hvenær gengið verði að kjörborðinu.“

Bætti hann við að stefnt sé á prófkjör innan Sjálfstæðisflokksins í byrjun september.

Spurður hvort grundvallaragáreiningur sé ekki á milli hans og formanns Framsóknarflokksins sem telur fráleitt að ákveða kjördag strax, sagðist Bjarni ætla að leyfa öðrum að dæma um það.

„Við erum sammála um að þingið hefur ekki lokið sínum verkefnum og það getur haft áhrif á það hversu lengi þingið situr hvernig starfsfriðurinn verður á þinginu. Það breytir því ekki að við þurfum að festa þessa hluti sem fyrst. Ég tel ekkert hafa breyst í neinum forsendum sem á að hafa áhrif á þetta.“

Ætlarðu að ræða við Sigmund Davíð á næstunni?„Það getur vel verið. Það er kannski orðið tímabært.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert