Flokksþing líklega fyrir kosningar

Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson …
Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra. mbl.is/Styrmir Kari

Miðstjórn Framsóknarflokksins fundar í byrjun september þar sem meðal annars verður tekin ákvörðun um hvenær næsta flokksþing flokksins fer fram. Flokksþing fara að jafnaði fram fyrri hluta árs annað hvert ár samkvæmt lögum Framsóknarflokksins. Næsta flokksþing verður að óbreyttu haldið á fyrri hluta næsta árs. Hægt er þó að boða til flokksþings hvenær sem er enda segir einungis í lögum flokksins að flokksþing skuli ekki fara sjaldnar fram en annað hvert ár.

Miðstjórnin fundar alla jafna að vori og hausti og skulu fundir boðaðir með 30 daga fyrirvara. Þó er hægt að boða til miðstjórnarfunda hvenær sem er og eru fordæmi fyrir því. Fyrirhugaður fundur í byrjun september er því hefðbundinn. Hvergi í lögum Framsóknarflokksins er kveðið á um að boða þurfi flokksþing með ákveðnum fyrirvara að öðru leyti en því að drög „að málefnum sem álykta skal um skulu vera tilbúin og berast til flokksfélaga viku fyrir flokksþing.“

Hins vegar er ljóst að ákveðið verður á miðstjórnarfundinum í september hvenær næsta flokksþing fer fram sem fyrr segir. Það staðfestir Einar Gunnar Einarsson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, í samtali við mbl.is. Spurningin sé aðeins hvort það verður haldið fyrir þingkosningar í haust sem stefnt hefur verið að eða hvort það fer fram á hefðbundnum tíma á fyrri hluta næsta árs. Það er alfarið í höndum miðstjórnarinnar.

Hverjir skipa miðstjórn Framsóknarflokksins?

Talsverður hópur á sæti í miðstjórn Framsóknarflokksins. Þingmenn flokksins og ráðherrar eiga þannig sæti í miðstjórn auk landsstjórnar og framkvæmdastjórnar hans. Enn fremur fyrrverandi þingmenn og ráðherrar Framsóknarflokksins svo framarlega sem þeir séu enn félagar í flokknum. Sama á við um aðalmenn í sveitarstjórnarráði Framsóknarflokksins og stjórn og varastjórn launþegaráðs flokksins. Enn fremur eru sjö fulltrúar kosnir af landsstjórn.

Þá eiga sæti í miðstjórn Framsóknarflokksins einn fulltrúi fyrir hverja eitt hundrað félagsmenn í hverju kjördæmi eða brot úr þeirri tölu umfram 50 eins og segir í lögum flokksins. Fulltrúarnir eru kosnir á kjördæmisþingum til eins árs í senn í samræmi við reglur viðkomandi kjördæmissambands. Þriðjungur fulltrúanna í það minnsta skal vera úr hópi ungra félagsmanna í Framsóknarflokknum. Jafnmargir varamenn skulu enn fremur kjörnir á sama hátt.

Flokksþing er æðsta vald í málefnum Framsóknarflokksins, markar meginstefnu flokksins í landsmálum og ákveður lög hans. Flokksþing kýs meðal annars formann Framsóknarflokksins, varaformann og ritara. Formaður flokksins er enn fremur formaður miðstjórnar. Það er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Kallað hefur verið eftir því á undanförnum mánuðum að flokksþingi verði flýtt og það haldið fyrir fyrirhugaðar þingkosningar næsta haust.

Telur að enginn fari gegn Sigmundi Davíð

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, sagði í samtali við Ríkisútvarpið fyrir helgi að hann teldi skynsamlegt að flokksþing færi fram fyrir fyrirhugaðar þingkosningar. Haft var einnig eftir Gunnari Braga Sveinssyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að hann teldi vilja vera fyrir því og Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur einnig talað á svipuðum nótum í fjölmiðlum.

Gunnar Bragi sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að hann teldi engan líklegan til þess að bjóða sig fram gegn Sigmundi Davíð á næsta flokksþingi. Sagði hann Sigmund hafa verið traustan og góðan formann og hann bæri fullt traust til hans. Sagðist Gunnar sannfærður um að Sigmundur yrði áfram formaður Framsóknarflokksins enda sæi hann ekki neinn sem ætlaði eða gæti tekið við því hlutverki. Hann ætti því ekki von á að formannskjör færi fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert