Lögin um endurútreikning ekki skýr

Frambjóðendur Pírata á höfuðborgarsvæðinu stóðu fyrir kynningarfundi í síðustu viku. …
Frambjóðendur Pírata á höfuðborgarsvæðinu stóðu fyrir kynningarfundi í síðustu viku. Kjördæmaráð hefur nú ákveðið að endurtelja atkvæði prófkjörsins. Ófeigur Lýðsson

Endurútreikningur á listum Pírata mun ekki hafa nein áhrif á frambjóðendur í efstu sætum flokksins. Þetta segir Jóhann Kristjánsson, kosningastjóri Pírata. Vangaveltur hafa verið um það á netspjalli Pírata hvort lög flokksins krefjist þess að listi sé endurreiknaður hafni frambjóðandi því að taka sæti á listanum. 

Jóhann Kristjánsson, kosningastjóri Pírata, segir lög Pírata ekki vera skýr hvað þetta varðar. „Lögin hjá okkur þau krefjast þessa ekki beint, en hins vegar er það í höndum kjördæmaráða hvort þau geri þetta,“ segir Jóhann og kveður tilvísun í lögunum um að þetta skuli gert.

Kjördæmaráð höfuðborgarsvæðisins, sem nær yfir bæði Reykjavíkurkjördæmin og Suðvesturkjördæmið, ætlar að endurtelja atkvæði á listanum eftir að Erna Ýr Öldudóttir, fyrrverandi formaður framkvæmdaráðs Pírata, tilkynnti að hún hygðist ekki taka sæti á listanum.  

Jóhannes segir kjördæmaráð hafa ákveðið að gera þetta til að hafa vaðið fyrir neðan sig. Ekki liggur hins vegar enn fyrir hvort atkvæði verði einnig endurtalin í Norðausturkjördæmi, en þar hafnaði Björn Þorláksson, sæti á lista flokksins eftir að hafa endað í 7. sæti í prófkjörinu. „Þeir í Norðausturkjördæmi voru fyrstir með sitt prófkjör og mér skilst að sú regla hafi ekki verið samþykkt þegar prófkjörið fór af stað þannig að þá er ekki sama krafa um endurútreikning,“ segir Jóhann. Kjördæmaráð Norðausturkjördæmis sé engu að síður að skoða hvort það verði gert.

„Þessi endurútreikningur mun ekki hafa nein áhrif á neinn í efstu sætunum, þetta er bara spurning um hvernig þeir sem eru neðar á listanum raðast.“

Atkvæðafjöldinn bak við hvern og einn ekki gefinn upp

Jóhann segir ekki standa til að gefa upp hve mörg atkvæði séu á bak við hvern einstakling á listanum og slík krafa hafi ekki verið rík meðal frambjóðendanna sjálfra. „Fólk hefur almennt treyst aðferðafræðinni og við höfum líka lagt okkur í líma við að hafa þessa hluti í lagi.

Píratar nota svonefnda Schultz-aðferð  sem Jóhann segir vera þekkta aðferð við niðurröðun á lista. „Það er full leynd á bak við hvert atkvæði og ekki hægt að rekja sig til baka.“

Gögnin séu engu að síður til. „Þannig að það er hægt að fara út í ýmsa tölfræði, en við höfum ekki sest niður og ákveðið hvaða tölfræði það er sem við myndum vilja vera að skoða. Þetta er vinna sem þyrfti að fara fram með það í huga hvernig hún gæti nýst okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert