Segir áætlunina ekki hafa neina vigt

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/Eggert

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna og fulltrúi flokksins í fjárlaganefnd Alþingis, segir fjármálaætlunina sem samþykkt var á þinginu í dag ekki hafa neina vigt þar sem ríkisstjórnin sé í raun og veru bara starfsstjórn. Þetta sagði hún í Kastljósþætti kvöldsins.

Viðmælendur Þóru Arnórsdóttur, ritstjóra Kastljóss, að þessu sinni voru auk Bjarkeyjar Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, og Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar. 

Rifjaði Bjarkey það upp að ástæða þess að kosningum hafi verið flýtt hafi verið vegna þess að stjórnarflokkarnir hrökkluðust frá völdum í kjölfar umræðunnar um Panama-skjölin. „Að leggja fram áætlun núna hefur ekkert gildi inn í framtíðina. En plaggið sem slíkt, og lögin sem slík, eru af hinu góða,“ sagði Bjarkey.

Metnaðarfull markmið við niðurgreiðslu skulda ríkisins

Guðlaugur Þór benti á að með langtímaáætlun í ríkisfjármálum sé íslenska ríkið komið á þann stað sem samanburðarríkin eru á, þ.e. með langtíma fjárhagsáætlanir og nefndi Guðlaugur t.a.m. Svíþjóð í því sambandi, þar sem gera þurfi grein fyrir því hvernig eigi að fjármagna útgjalda aukningu ríkisins. Þá sagði hann að með áætluninni komi fram metnaðarfull markmið við niðurgreiðslu skulda ríkisins og verða það OECD-ríki sem skuldi minnst.

Guðlaugur Þór, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Guðlaugur Þór, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert

Gagnrýndi Guðlaugur málflutning stjórnarandstöðuflokkana í gagnrýni þeirra við áætlunina. Spurði hann hvort stjórnarandstöðuflokkarnir vildu raunverulega standa við markmiðin um niðurgreiðslu skulda og sagði einnig að í gagnrýni þeirra kæmu fram hugmyndir um aukna skattbyrði miðjustéttarinnar og eldra fólks. Annars vegar með breyttu tekjuskattskerfi og hins vegar með eignaskatti.

Reynir á þroska þingsins

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is

Helgi Hjörvar sagði í umræðum um þingmálin sem eftir á að afgreiða á þeim átta þingfundum sem eftir eru af núvervandi þingi að það reyni nú á þroska þingsins ef það eigi að skapast sátt um mikilvægustu málin. Nefndi hann sérstaklega í því sambandi séreignarsparnaðarleiðina sem ríkisstjórnin kynnti í vikunni og sagði frumvarpið koma sér sérstaklega vel fyrir efnameira ungt fólk. 

Í gagnrýninni sagðist hann heldur vera þeirrar skoðunar að hjálpa ætti þeim ungmennum sem verst hefðu það. Þá gagnrýndi hann einnig að falla ætti frá tekjutengingu við endurgreiðslu námslána. Helgi sagið það geta verið mikil framför ef þessum atriðum frumvarpsins yrði breytt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert