Undirbúa hugsanlega stjórnarmyndun

Smári McCarthy.
Smári McCarthy. mbl.is/Sigurgeir

„Sem flokkur erum við í ýmiss konar tilraunastarfsemi, og þetta er ein tilraun sem okkur langar að prófa,“ segir Smári McCarthy, sem vermir efsta sæti á lista Pírata í Suðurkjördæmi, um félagsfund sem fram fer hjá flokknum í kvöld vegna tillagna um umboðsmenn til stjórnarmyndunarviðræðna.

Smári segir að þar sem Píratar séu ekki með eiginlegan flokksformann, þurfi í vissum tilvikum að útnefna umboðsmenn til að sjá um ákveðin hlutverk. „Þar sem við erum að fara í kosningar þá þarf að vera einhver eða einhverjir sem eru með umboð frá flokknum til að geta átt viðræður við aðra stjórnmálaflokka og átt fund með forsetanum til dæmis, bæði ef ske kynni að við yrðum í aðstöðu til að mynda ríkisstjórn og einnig ef við verðum það ekki,“ segir hann.

Þingmenn, aðrir flokksmenn eða sérfræðingar í samningsgerð?

Að sögn Smára verða það að öllum líkindum þrír aðilar sem munu fá umboð flokksins til að sinna umræddum hlutverkum. Hann segist ekki vita hversu margar tillögur verði lagðar fram eða hverjir hafi verið nefndir í þessu samhengi. „En fundurinn í kvöld er ákveðið ferli til að koma þessu í almenna kosningu.“

Mismunandi sjónarmið munu að öllum líkindum koma fram á fundinum að sögn Smára. Sumir telji best að þingmenn sinni þessu hlutverki en aðrir vilji fá aðkomu fólks sem sé alls ekki í þingmannahóp, eða hugsanlegum þingmannahóp. Enn aðrir hafi talað um að fá aðila sem eru sérhæfðir í samningagerð. „Það eru allskonar pælingar í gangi svo við sjáum til hvernig þetta fer,“ segir Smári.

Vilja halda „strúktúrnum“ eins flötum og hægt er

Smári segir að ástæðan sé sú að flokkurinn vilji halda „strúktúrnum“ eins flötum og hægt er. „Við höfum séð hvernig hlutir virka hjá öðrum flokkum og sumt er gott og jafnvel til eftirbreytni en við viljum í raun ekki taka upp ferla hefðbundinna stjórnmála bara vegna þess að þeir virka heldur viljum við prófa nýja hluti. Stundum verður okkur á og þá er það bara í lagi. Þá bökkum við og reynum eitthvað annað.“

Hann segir umboðsmannaferlið þó vera eitt mest íþyngjandi ferli innan flokksins. Kjósa þarf um umboðsmenn í almennum kosningum félagsmanna og í kjölfarið þarf framkvæmdaráð flokksins og þingflokkurinn að samþykkja niðurstöðurnar. „Við erum að gera þetta nokkuð tímanlega þar sem eðli málsins samkvæmt er fólk í ýmsum flokkum byrjað að tala saman um hvaða möguleikar eru fyrir hendi.“

Hafa ekki formlega útilokað neinn flokk

„Ég var á fundi í hádeginu á vegum Stjórnarskrárfélagsins þar sem fjallað var um hvort stjórnarflokkar gætu komið sér saman um að koma stjórnarskrármálinu í gegn. Það er eitthvað sem við höfum talað fyrir en það er erfitt fyrir okkur að mynda hvort sem er bindandi eða óbindandi samkomulag um eitthvað þegar enginn hefur umboð til þess frá flokknum. Það er það sem við munum greiða úr í kvöld,“ segir Smári um fundinn.

Hvað stjórnarmyndunarviðræðurnar varðar, ef til þeirra kemur fyrir flokkinn, segir Smári að Píratar hafi ekki formlega séð útilokað neinn flokk til samstarfs. „En við höfum talað fyrir ákveðnum málum sem okkur finnst mjög mikilvæg og á vissan hátt hafa aðrir flokkar útilokað sjálfa sig á þeim grundvelli - til dæmis með því að þvertaka fyrir kerfisbreytingar. En ég held að markmiðið verði að tala við sem flesta flokka og helst alla og reyna að komast að eðlilegri samstöðu um það sem hægt er að komast að samstöðu um.“

Félagsfundur fer fram hjá flokknum í kvöld vegna tillagna um …
Félagsfundur fer fram hjá flokknum í kvöld vegna tillagna um umboðsmenn til stjórnarmyndunarviðræðna.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert