Byggist á pólitískum ástæðum kjósenda

Páll Magnússon, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.
Páll Magnússon, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. mbl.is/Rax

„Þetta er afar öflugur listi sem var samþykktur samhljóða,“ segir Páll Magnússon, oddviti lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, en listinn var samþykktur af kjördæmisráði í dag. Unnur Brá Konráðsdóttir alþingismaður færðist upp um eitt sæti á listanum eftir að Rangheiður Elín Árnadóttir hafnaði fjórða sæti sem hún fékk í prófkjöri flokksins. Þá komu nýjar inn á listann þær Kristín Traustadóttir í fimmta sæti og Hólm­fríður Erna Kjart­ans­dótt­ir í það sjötta.

Frétt mbl.is: Páll, Ásmundur og Vilhjálmur efstir

Segir Páll að ef horft sé til efstu átta sætanna sé mikil blanda á listanum, bæði af ungu fólki, eldra fólki, körlum og konum. Segir hann rétt að umræða hafi átt sér stað um stöðu kvenna á listanum en hann trúi því að niðurstaða prófkjörsins byggist ekki á kynjasjónarmiðum heldur pólitískum ástæðum kjósenda flokksins í kjördæminu.

Bendir Páll á að fyrir síðustu kosningar hafi tvær konur verið efstar á listanum og þá hafi engum dottið í huga að gera ætti neinar breytingar. „Ég lít á hvort tveggja, bæði þegar konur verma efstu sætin og lenda neðar, sem pólitískar ástæður sem kjósendur Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu hafa komist að,“ segir Páll og bætir við: „Það er sama hugsun um framgang og þegar þær komast ekki áfram.“

Það eru þó ekki bara kynjahlutföll sem geta valdið umræðum um uppröðun og segir Páll að á fundinum hafi meðal annars verið bent á að hlutfall ákveðinna svæða í kjördæminu væri heldur bágborið. Segir Páll að erfitt sé að gera öllum til geðs þegar horft sé til svæðaskiptingar, kynja, aldurs, og fleiri atriða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert