Vill að Sigurður fái að tala líka

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þegar tæpir tveir sólarhringar eru til flokksþings Framsóknarflokksins hljóðar dagskrá þingsins þannig að Sigmundi Davíð er ætluð klukkustund til ræðuhalda en Sigurði Inga ekki svo mikið sem ein mínúta. Enn er tími til að gera breytingu þannig að sanngirnis sé gætt.“

Þetta segir Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag en flokksþing framsóknarmanna fer fram um helgina þar formannskjör mun meðal annars fara fram. Kosið verður á milli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, og Sigurðar Inga Jóhannssonar, forsætisráðherra og varaformanns flokksins.

Drög að dagskrá flokksþingsins gera ráð fyrir því að formaður Framsóknarflokksins flytji yfirlitsræðu í rúma klukkustund klukkan 11:00 á laugardaginn en formannskosningin fer fram á sunnudaginn. Karl Hefur lýst yfir stuðningi við Sigurð Inga.

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, svarar Karli og bendir á að endanleg dagskrá liggi ekki fyrir. Formannsframbjóðendur fái hins vegar væntanlega tíma til þess að kynna sig á flokksþinginu fyrir formannskjörið.

Tvær skoðanakannanir voru birtar í dag sem eru samhljóma um það að kjósendur Framsóknarflokksins vilji frekar Sigmund Davíð áfram sem formann en meirihluti kjósenda allra flokka vilji frekar Sigurð Inga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert