„Þekkjum ekki taparann Sigmund Davíð“

Grétar Þór telur Framsóknarflokkinn eiga meiri möguleika á að vera …
Grétar Þór telur Framsóknarflokkinn eiga meiri möguleika á að vera með í ríkisstjórnarmyndunarviðræðum með Sigurð Inga Jóhannsson sem formann flokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Flokkurinn er sennilega vænlegri til samstarfs heldur en það leit út fyrir ef Sigmundur hefði unnið,“ segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, í samtali við mbl.is. Þá segir Grétar verða að koma í ljós hvernig Sigmundur Davíð muni bregðast við tapinu.

Grétar telur að Framsóknarflokkurinn eigi meiri möguleika á að vera með í ríkisstjórnarmyndun með Sigurð Inga Jóhannsson sem formann flokksins heldur en Sigmund Davíð Gunnlaugsson en það liggi í loftinu að stjórnarmyndunarviðræður muni reynast erfiðar að kosningum loknum.

„Sigurður Ingi er búinn að sýna það að honum gengur betur að vinna með pólitískum andstæðingum og samherjum heldur en Sigmundi hefur oft gengið,“ segir Grétar.

Erfitt að segja til um áhrif á fylgi

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri.
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri. mbl.is

Þá segir Grétar erfitt að segja til um hvort kjör nýs formanns komi til með að hafa áhrif á fylgi við flokkinn og skoðanakannanir fram að kosningum. „Það er voðalega erfitt að átta sig á því hvaða áhrif þessi slagur hafði meðan hann stóð yfir á fylgismælingarnar.

Það getur líka vel verið að einhverjir fari í fýlu og gefi þá ekkert út á Framsóknarflokkinn,“ segir Grétar en á móti komi að einhverjir kunni nú frekar að hugsa sér að kjósa flokkinn eftir að ljóst sé hvernig landið liggur. „Ég held þó að það sé líklegra heldur en hitt að þeir geti bætt við sig einhverju.“

Lilja Dögg miðli málum sem varaformaður

„Það að hún hafi verið kosin þarna inn í varaformann er náttúrlega greinilega einhvers konar málamiðlun milli hinna stríðandi fylkinga,“ segir Grétar um kjör Lilju Daggar Alfreðsdóttur sem varaformanns flokksins. Telur Grétar það nokkuð augljóst, sérstaklega í ljósi þess að Eygló Harðardóttir dró framboð sitt til baka.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég svona horfi frekar á að kjör hennar sé eitthvað sem er ætlað til að reyna að græða sár í flokknum og tengja fylkingarnar og safna mönnum saman á þeim stutta tíma sem er til kosninga,“ útskýrir Grétar sem telur að Lilja muni gegna lykilhlutverki í að sameina ólíkar fylkingar innan flokksins.

Þekkjum ekki taparann Sigmund Davíð

Slagurinn um formannssæti Framsóknarflokksins hefur vakið gríðarlega athygli bæði innan og utan Framsóknarflokksins og meðal fjölmiðla og almennings. Segir Grétar þennan áhuga almennings hljóta að hafa með það að gera hvernig hann er til kominn.

„Þessi formannskosning á sér í raun og veru stað vegna Wintris-málsins og Panamaskjalanna. Það held ég að hafi aukið áhuga og eftirvæntingu hins almenna borgara, ég held að það sé nú kannski meginatriði,“ segir Grétar. „Svo er náttúrlega Sigmundur þannig karakter, það gustar af honum.“ 

Grétar segir að næst verði að koma í ljós hvaða skref Sigmundur mun taka. „Við verðum bara að bíða og sjá. Það má kannski segja það að við þekkjum ekkert annað en sigurvegarann Sigmund Davíð, við þekkjum ekki taparann Sigmund Davíð og það er eitthvað sem verður að koma í ljós núna,“ segir Grétar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert