Kjörsókn fer rólega af stað

Klukkan 13 var kjörsókn 13,88% í Reykjavíkurkjördæmi norður en kjörstaðir …
Klukkan 13 var kjörsókn 13,88% í Reykjavíkurkjördæmi norður en kjörstaðir voru opnaðir klukkan 9. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kjörsókn fer rólega af stað í kjördæmum landsins. Fulltrúar yfirkjörstjórna á landsbyggðinni sem mbl.is ræddi við sjá ekki fyrir sér að það verði erfitt að koma atkvæðunum á talningastaði vegna veðurs.

Atkvæðin frá Grímsey komust til yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi um hálfeittleytið í dag með flugvél. Inga Þöll Þórgnýsdóttir hjá yfirkjörstjórn gat ekki veitt upplýsingar um kjörsókn. Hún segist ekki búast við vandræðum með að koma atkvæðunum á talningastað í kvöld vegna veðurs en þó má gera ráð fyrir því að þau komi seint að austan.

Kjörsókn var um 10% í Norðvesturkjördæmi klukkan 11 í dag samkvæmt upplýsingum frá Kristjáni Jóhannssyni hjá yfirkjörstjórn kjördæmisins. Hann bendir þó á að á sumum stöðum voru kjörstaðir ekki opnaðir fyrr en klukkan 12 en von er á næstu kjörsóknartölum klukkan 15 í dag. Aðspurður hvort hann sjái fyrir sér að það gæti orðið erfitt að koma atkvæðunum á leiðarenda í kvöld segir hann svo ekki vera. „Við sjáum ekki nein vandkvæði í því.“

Klukkan 11 höfðu 5,08% kosið í Suðurkjördæmi. Samkvæmt upplýsingum frá Óskari Þórmundssyni hjá yfirkjörstjórn kjördæmisins voru kjörstaðir opnaðir  klukkan níu. Ekki er gert ráð fyrir því að það skapist vandræði við að koma atkvæðunum á áfangastað. „Við erum með nokkur plön, sérstaklega þegar það kemur að Vestmannaeyjum. Í versta falli verður farið með þau til Þorlákshafnar og þau sótt þangað,“ segir Óskar.

Þá höfðu 4,5% kosið í Suðvesturkjördæmi klukkan 11. Það er mun minni kjörsókn en í alþingiskosningunum 2013 en á sama tíma þá höfðu 6,4% kosið. 

Klukkan 13 var kjörsókn 13,88% í Reykjavíkurkjördæmi norður en kjörstaðir voru opnaðir klukkan 9. Þá höfðu 8,5% kosið í Reykjavíkurkjördæmi suður klukkan 12. Er það örlítið minna en á sama tíma fyrir síðustu alþingiskosningar en þá var kjörsóknin 11,02% klukkan 12.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert