Hvaða samstarf er mögulegt?

Hvaða flokkar ætli myndi næstu ríkisstjórn?
Hvaða flokkar ætli myndi næstu ríkisstjórn? Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra heldur klukkan þrjú í dag á fund forseta Íslands þar sem hann mun afhenda honum umboð sitt. Væntanlega mun forsetinn í framhaldinu heyra í einum eða fleiri formönnum flokka sem fengu þingmenn kosna í gær til að ræða mögulegt stjórnarsamstarf með það fyrir augum að afhenda einum leiðtoga umboðið. 

Sjö flokkar náðu kjöri, en það er heldur mikið og til að mynda fjölgar nú flokkum um einn sem áður sátu á þingi. Engir tveir flokkar eiga möguleika á að mynda stjórn, nema um minnihlutastjórn sé að ræða. Þegar margir flokkar eiga í hlut og ljóst er að allavega þrjá flokka þarf til að mynda stjórn eru fjölmargar samsetningar sem koma til greina.

Í dag hafa nokkrir formenn flokka tjáð sig um mögulegar stjórnarmyndanir og útilokað ákveðna flokka eða stjórnarmyndanir. Þannig hafa Píratar sagt að þeir muni ekki vinna með Sjálfstæðisflokki og á móti hefur Sjálfstæðisflokkurinn útilokað Pírata. Þá sagðist formaður Vinstri grænna ekki vilja samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. 

Þá útilokaði Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, samstarf með Pírötum, Vinstri grænum, Samfylkingu og Bjartri framtíð. Áður hafði hann í útvarpsþættinum Harmageddon fyrir kosningar einnig sagt að flokkurinn myndi ekki styðja við núverandi ríkisstjórn.

Til viðbótar við þetta ræddu Vinstri grænir, Píratar, Björt framtíð og Samfylking saman fyrir kosningar þar sem fram kom að þeir flokkar myndu vilja starfa saman, þótt formlega hafi ekki verið lokað á að starfa með ríkisstjórninni áfram. Slíkt verður þó að teljast ólíklegt.

mbl.is tók saman nokkur möguleg stjórnarmynstur út frá niðurstöðum kosninga. Til að fá meirihluta á þingi þarf 32 þingsæti. Það samstarf sem hefur verið útilokað af allavega tveimur flokkum er merkt með rauðum lit, það samstarf sem hefur verið útilokað af einum flokki er merkt með gulum lit og þær myndanir sem ekki hafa verið útilokaðar formlega eru með grænum lit. Þess ber að geta að þar inni eru einnig mögulegar uppraðanir með núverandi stjórnarflokkum og öðrum flokkum, utan Pírata sem hafa útilokað samstarf með Sjálfstæðisflokknum.

Nokkrar samsetningar á ríkisstjórn og það sem hefur verið útilokað. …
Nokkrar samsetningar á ríkisstjórn og það sem hefur verið útilokað. Rauður merkir að tveir eða fleiri flokkar hafa útilokað samstarf. Gulur að einn flokkur hafi gert það og grænn að ekkert formlegt liggi fyrir. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert