Reyndu að „meta landslagið“

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Eggert

„Við vorum aðeins að reyna að meta hvernig landslagið er,“ segir Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, um símtal sitt við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins.

Frétt mbl.is: Ræddi við Bjarta framtíð og Viðreisn

„Við erum auðvitað búin að vera, formenn allra flokkanna, meira og minna síðan á kosninganótt, sundur og saman hjá fjölmiðlum, í sjónvarpsþáttum og svo framvegis, og  auðvitað höfum hist í sminkinu,“ segir Óttarr í samtali við mbl.is.

„Og það eru auðvitað allir að reyna að átta sig á þessari breyttu stöðu sem er náttúrlega mjög óvenjuleg í íslenskri pólitík. Menn eru ekkert farnir að ræða eða semja neitt meira en þetta, bara að reyna að átta sig á hlutunum.“

„Allir á sama stað“

Spurður hvort hann hafi, vegna umfjöllunar um símtal hans og Bjarna, fundið fyrir einhverjum ótta á meðal hinna „Lækjarbrekkuflokkanna“, Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna, segist Óttarr ekki hafa fundið fyrir slíku.

„Ég held að allir séu dálítið á sama stað núna, og gera sér grein fyrir því að við erum öll að hittast og öll að tala saman.“

Aðspurður vildi hann þá ekki upplýsa hvaða skilaboð hann myndi færa á borð forseta Íslands, á fundi þeirra síðar í dag.

„Ég ætla að sýna forsetanum þá virðingu að segja honum það fyrst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert