Mikil leynd hvílir yfir viðræðunum

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar og …
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Mynd/mbl.is

Formenn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hafa fundað í dag og í gær með væntanlega stjórnarmyndum í huga samkvæmt áreiðanlegum heimildum mbl.is.

Mikil leynd ríkir yfir viðræðunum en formennirnir, Bjarni Benediktsson, Benedikt Jóhannesson og Óttarr Proppé hafa ekki látið ná í sig. Auk þess hafa aðrir þingmenn flokkanna verið afar tregir til að gefa nokkuð upp.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, staðfesti í samtali við mbl.is í gær að hennar flokkur væri ekki í neinum stjórnarmyndunarviðræðum. Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, skrifaði á Facebook-síðu sína í gær þar sem kom fram að Píratar væru ekki í neinum leyniviðræðum við neina flokka um myndun ríkisstjórnar.

Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð eru samtals með 32 þingmenn á þingi og er því minnsti mögulegi þingmeirihluti. Eftir kosningarnar 29. október fóru flokkarnir í formlegar stjórnarmyndunarviðræður upp úr þeim slitnaði um miðjan síðasta mánuð. 

Tvívegis hefur verið reynt að mynda fimm flokka stjórn eftir að upp úr viðræðum áðurnefndra þriggja flokka slitnaði. Þær viðræður hafa ekki gengið sem skyldi og virðist röðin því aftur komin að Sjálfstæðisflokki, Viðreisn og Bjartri framtíð að spreyta sig og reyna að mynda ríkisstjórn.

Það verður síðan að koma í ljós hversu hratt viðræður flokkana gangi og hvort þeir nái saman í þetta skiptið. Eins og staðan er núna lítur í það minnsta allt út fyrir að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, flytji ávarp forsætisráðherra á gamlárskvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka