„Það verða ráðherrar“

Spjaldmynd af Óttari Proppé og Benedikt Jóhannesson.
Spjaldmynd af Óttari Proppé og Benedikt Jóhannesson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, segir stjórnarmyndunarviðræður ganga ágætlega. Fullsnemmt sé þó að tala um skiptingu ráðuneyta á þessari stundu.

Fréttablaðið birti í morgun frétt þess efnis að Benedikt sækist eftir því að verða fjármálaráðherra takist Sjálfstæðisflokki, Viðreisn og Bjartri framtíð að mynda ríkisstjórn. 

„Það er bara ekki komið að skiptingu ráðuneyta enn þá. Þetta er ótímabær frétt,“ segir Benedikt í samtali við mbl.is þegar fréttin var borin undir hann.

Benedikt er stærðfræðingur og hafa einhverjir velt því fyrir sér að hann yrði fjármálaráðherra, fari svo að Viðreisn verði hluti af ríkisstjórn. „Þetta er bara ekki komið á það stig enn þá, það er nú þannig. Það eru mörg mikilvæg ráðuneyti sem þarf að skipta milli flokkanna. Eins og Óttarr sagði í gær þá liggur ljóst fyrir að það verða ráðherrar,“ segir Benedikt en að hans mati ganga viðræðurnar nokkuð vel:

„Þetta hreyfist ágætlega,“ segir Benedikt en formlegum stjórnarmyndunarviðræðum verður haldið áfram í dag.

Benedikt sagði í Kryddsíld Stöðvar 2 á gamlársdag að líkurnar á því að flokkunum þremur tækist að mynda ríkisstjórn væru 87,5%. Aðspurður segir hann líkurnar að aukast. „Er það ekki á meðan það kemur ekki bakslag, þá halda þær áfram að aukast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert