„Ég bý að ágætri reynslu“

Þorsteinn Víglundsson.
Þorsteinn Víglundsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér líst mjög vel á þetta. Ráðuneytið er viðamikið og spennandi, það er og mikið af skemmtilegum verkefnum fram undan þannig að þetta leggst mjög vel í mig, sagði Þorsteinn Víglundsson, sem verður félagsmálaráðherra í nýrri ríkisstjórn, að loknum þingflokksfundi Viðreisnar.

Þorsteinn er nýliði á Alþingi en hann telur að það muni ekki vinna gegn honum í ráðherrastarfinu; hann þekki málaflokkinn ágætlega. 

Vinnur á móti að vera nýr á þingi? „Hérna eru málefni vinnumarkaðar og málefni almannatrygginga. Jafnréttismálin sem við munum leggja mjög mikla áherslu á og húsnæðismál og fleiri þættir og ég bý að ágætri reynslu í flestum þessara málaflokka og hlakka til.“

Aðspurður sagði Þorsteinn að sér litist afar vel á stjórnarsáttmálann sem formenn Viðreisnar, Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar undirrituðu í dag. „Þetta er mjög frjálslyndur stjórnarsáttmáli með áherslu á velferðarmál, mannréttindamál og jafnréttismál en um leið leggur hann áherslu á efnahagslegan stöðugleika og fjölbreytni í atvinnulífi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert