Evrópumál lagt fyrir þingið

Ótt­arr Proppé, Bjarni Bene­dikts­son og Bene­dikt Jó­hannes­son kynntu fréttamönnum stefnuyfirlýsingu …
Ótt­arr Proppé, Bjarni Bene­dikts­son og Bene­dikt Jó­hannes­son kynntu fréttamönnum stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórarn í Gerðarsafni í Kópavogi. mbl.is/Eggert

Komi fram þingmál um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið eru stjórnarflokkarnir sammála um að greiða skuli atkvæði um málið og leiða það til lykta á Alþingi undir lok kjörtímabilsins. Stjórnarflokkarnir kunna að hafa ólíka afstöðu til málsins og virða það hver við annan.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í stefnuyfirlýsingu stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, sagði í samtali við mbl.is í gær að það væri vel þekkt að ekki væri samstæður meirihluti ríkisstjórnarflokka í því máli og ágreiningurinn hafi verið djúpstæður.

Ennfremur kemur fram að ríkisstjórnin muni byggja samstarf við Evrópusambandið á samningum um Evrópska efnahagssvæðið. Fylgjast þurfi vel með þróun Evrópusambandsins á næstu árum og gæta í hvívetna hagsmuna Íslands í samræmi við aðstæður hverju sinni.

Forsendur peninga- og gjaldmiðilsstefnu Íslands verða endurmetnar í samræmi við skýrslu Seðlabanka frá árinu 2012 um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum. Unnið verður að því að draga úr þeim miklu sveiflum sem verið hafa á gengi krónunnar. Slíkar sveiflur stuðla að óstöðugleika og skýra að nokkru hvers vegna vextir eru að jafnaði hærri hér á landi en erlendis.

Eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar er að vinna markvisst áfram að framgangi áætlunar um afnám fjármagnshafta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert