Bjarni á Bessastaði klukkan 11

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, fundaði með formönnum allra flokka …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, fundaði með formönnum allra flokka á Bessastöðum á laugardaginn. mbl.is/Árni Sæberg

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson mun eiga fund með Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra á Bessastöðum kl. 11:00 í dag.

Að fundinum loknum mun forseti ávarpa fulltrúa fjölmiðla. Þetta kemur fram í tilkynningu frá embætti forseta Íslands.

Þar mun Bjarni leggja fram beiðni um þingrof og í kjölfarið verður kosið til Alþingis innan 45 daga. Útlit er fyrir að kosningar fari fram 28. október en stjórnmálaflokkarnir þurfa þá að skila framboðslistum til kjörnefndar eigi síðar en 15 dögum áður, eða 13. október.

Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, hefur boðað alla flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi á fund í dag til að reyna að ná samstöðu um mikilvæg mál fyrir þingslit. Meðal mála sem flokkarnir leggja fram á þessum knappa tíma eru tvær stjórnarskrárbreytingar, frumvarp sem veitir fimm hælisleitendum ríkisborgararétt, frumvarp um að sakfelldir barnaníðingar megi ekki vera lögmenn, ásamt frumvarpi um notendastýrða persónuaðstoð, svo dæmi séu tekin.

Nefndir og ráð allra flokka vinna nú að framboðslistum en ekki er búist við miklum breytingum. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, segir of snemmt að tala um hvort einhverjar breytingar verða á framboðslistum flokksins en uppstillingarnefndir í hverju kjördæmi sjá um framboðslista Viðreisnar. Í Vinstri grænum eru það kjördæmisráðin á hverjum stað sem taka ákvarðanir um framboð í hverju kjördæmi. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, á von á því að farnar verði þær leiðir sem kalla á sem minnstan tíma. „Þannig að það er þá uppstilling frekar en forval,“ segir Katrín. Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins ákveður lista flokksins í hverju kjördæmi fyrir sig, segir í frétt Morgunblaðsins um væntanlegar kosningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert