Hvað er málið með þessa stjórnarskrá?

Stjórnarskrármálið komst ekki á dagskrá á síðasta degi þingsins.
Stjórnarskrármálið komst ekki á dagskrá á síðasta degi þingsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eins og staðan er í dag hefur hinn almenni kjósandi enga beina aðkomu að ákvörðun um breytingar á stjórnarskrá Íslands. Ákvarðanir um breytingar á stjórnarskrá eru alfarið í höndum Alþingis eftir að bráðabirgðaákvæði, byggt á vinnu stjórnlagaráðs, féll úr gildi í apríl á þessu ári.

Til að hægt sé að gera breytingar á stjórnarskránni, eða setja inn viðauka, þarf að bera breytingartillögu upp á Alþingi og sé hún samþykkt þarf að rjúfa þing og kjósa aftur. Samþykki nýtt Alþingi tillöguna óbreytta skal hún að lokum staðfest af forseta Íslands.

Tæplega 65 prósent kjósenda sem skiluðu sér á kjörstað í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá í október árið 2012, sögðu já við tillögunni. Árið 2013 var sett inn bráðabirgðaákvæði í núverandi stjórnarskrá, byggt á hugmyndum stjórnlagaráðs, þar sem almenningi var tryggð aðkoma að breytingum á stjórnarskránni. Þá þyrfti ekki að rjúfa þing til að samþykkja breytingar. Ákvæðið féll hins vegar úr gildi í lok apríl á þessu ári.

Á þessu tæplega þriggja ára tímabili var því hægt að gera breytingar á stjórnarskrá með þeim hætti að minnst tveir að hverjum þremur þingmönnum samþykktu tillöguna. Hana átti svo að bera undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem hún þurfti að hljóta meirihluta gildra atkvæða, þó minnst 40 prósent kosningabærra manna.

Vildi skapa aukna samstöðu um stjórnarskrárbreytingar

Þetta ákvæði var í anda þeirrar tillögu sem Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, bar upp á fundi formanna allra flokka á Alþingi í vikunni, þegar samið var um lok þingstarfa. Hún sagðist hafa reynt að miðla málum til að skapa aukna samstöðu um stjórnarskrárbreytingar.

Tillaga Katrínar var að þrír af hverjum fimm þingmönnum þyrftu að samþykkja tillögu að stjórnarskrárbreytingu á Alþingi. Hún skyldi svo sett í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem minnst 25 prósent kosningabærra manna þyrftu að samþykja hana. Allir flokkar nema Sjálfstæðisflokkur tóku jákvætt í tillöguna, en með samkomulagi allra flokka, nema Samfylkingar og Pírata, var ákveðið að tillaga að breytingu á breytingarákvæði stjórnarskrár færi ekki á dagskrá þingsins. Var það mat sjálfstæðismanna að galið væri að gera breytingar á breytingar á ákvæðinu undir tímapressu á síðustu dögum fyrir kosningar.

Í upphafi síðasta þingfundar í gær lögðu tveir síðastnefndu flokkarnir fram dagskrártillögu þar sem lagt var til að sett yrði á dagskrá frumvarp þingmanna flokkanna um að breyta breytingarákvæðinu. Dagskrártillagan var hins vegar felld.

Í sömu sporum og fyrir 73 árum

Eftir stöndum við því í sömu sporum og þegar stjórnarskráin tók gildi árið 1944. Til þess að hægt sé að gera breytingar á stjórnarskrá þurfa tvö þing að samþykja breytingartillöguna og almenningur hefur enga aðkomu að málinu nema með því að kjósa sína fulltrúa á þing.

Hefðu Píratar og Samfylking fengið sínu framgengt, frumvarp um breytingu á stjórnarskrá hefði verið verið sett á dagskrá og tveir þriðju hlutar þingsins hefðu samþykkt það, þá hefði frumvarpið beðið næsta þings til samþykktar. Ef það hefði orðið raunin hefði málum verið háttað þannig í framtíðinni að frumvörp til laga um breytingar á stjórnaskrá yrðu borin undir atkvæði almennings í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur talað fyrir þeirri tillögu að stjórnarskráin verði endurskoðuð í áföngum á næstu þremur kjörtímabilum, og hver kafli skoðaður fyrir sig. Það þýði hins vegar ekki að öll stjórnarskráin verði tekin til endurskoðunar. Var það hugmynd Bjarna að formenn flokkanna lýstu sameiginlega yfir vilja til að gera breytingar með þessum hætti. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert