Gunnar Bragi til liðs við Sigmund

Gunnar Bragi Sveinsson segist ætla að hjálpa Sigmundi Davíð eftir …
Gunnar Bragi Sveinsson segist ætla að hjálpa Sigmundi Davíð eftir bestu getu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gunnar Bragi Sveinsson, alþingismaður og fyrrverandi ráðherra, ætlar að ganga til liðs við nýjan flokk Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Þetta staðfesti Gunnar Bragi í samtali við Stöð 2 í kvöld.

Gunnar Bragi greindi frá því á Facebook-síðu sinni um hádegi í gær að hann hefði ákveðið að segja sig úr Framsóknarflokknum og hafði mbl.is eftir Sigurði Inga Jóhannssyni formanni Framsóknar að eftirsjá væri í jafnöflugum samherja og Gunnari Braga.

Fylgi við Sigmund Davíð Gunnlaugsson mældist 7,3% í könnun MMR, sem kynnt var á föstudag. Könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir Morgunblaðið sem birt var í morgun mældi fylgi flokksins sem 4,6%.

Gunnar Bragi hefur ekki tekið ákvörðun um það hvort hann verði sjálfur í framboði fyrir Miðflokk Sigmundar Davíðs í næstu þingkosningunum.  

„Ég ætla að aðstoða Sigmund eins mikið og ég get í þessari kosningabaráttu. Ég mun hjálpa Sigmundi ef ég get. Ég veit fyrir hvað hann stendur,“ hefur Vísir eftir Gunnari Braga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert