Stjórnmálaflokkar að klára framboðslista sína

Stjórnmálaflokkarnir eru þessa dagana að vinna að frágangi framboðslista sinna vegna þingkosninganna þann 28. október nk.

Reykjavíkurlistar Sjálfstæðisflokksins í báðum kjördæmunum verði kláraðir í dag. Listarnir í Suðurlands-, Norðvestur- og Norðausturkjördæmi verði frágengnir á morgun og listi flokksins í Suðvesturkjördæmi verði afgreiddur á mánudag, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Samfylkingin gengur frá framboðslistum í Reykjavík á fundi á Hótel Natura, kl. 10 í dag, frá lista í Norðvesturkjördæmi á morgun á kjördæmisþingi sem hefst kl. 13, í Suðvesturkjördæmi á þriðjudag, í Norðausturkjördæmi á morgun kl. 14 og í Suðurkjördæmi á þriðjudagskvöld og hefst fundurinn kl. 20.00.

Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, segir að einungis verði forval hjá flokknum í Suðvesturkjördæmi og fer það fram á mánudag, 1. október. Í öðrum kjördæmum sé meiningin að stilla upp listum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði við mbl.is í gær að uppröðun á lista Framsóknar væri í fullum gangi. Flokkur fólksins mun kynna frambjóðendur í efstu sætum í öllum kjördæmum í Háskólabíói í dag. Viðreisn er að stilla upp í öllum kjördæmum og búist er við að listarnir verði kynntir í lok næstu viku. Björt framtíð mun ganga frá framboðslistum sínum í öllum kjördæmum á mánudaginn kemur. Í dag lýkur prófkjöri hjá Pírötum í öllum kjördæmum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert