Kvartar ekki yfir fylginu

Sigmundur Davíð ásamt stuðningsmönnum
Sigmundur Davíð ásamt stuðningsmönnum Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er búið að vera virkilega skemmtilegt undanfarnar vikur og kosningarnar sjálfar eru auðvitað ákveðinn hápunktur í þessu en svo sjáum við bara hvað kemur upp úr kjörkössunum. Hvað sem því líður hef ég verið að vinna með frábæru fólki að því að setja saman nýjan stjórnmálaflokk á sama tíma og við erum í kosningabaráttunni og það hefur verið  mjög skemmtilegt þó að það hafi verið mikil vinna,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sem kaus á Akureyri um fjögurleytið í dag. 

„Ég verð að viðurkenna að maður gat ekki séð allt fyrir sem fylgdi því að setja saman flokk, ég tala nú ekki um á svona skömmum tíma, en það hafðist vegna þess að það kom fjöldi af alveg ótrúlega öflugu fólki sem hefur verið í þessu á hverjum einasta undanfarnar vikur og einhvern veginn small þetta allt saman. Það er skemmtilegt að vera þátttakandi í því og upplifa það.“

Spurður um kosningabaráttuna segir Sigmundur að hann hefði viljað að hún snerist meira um málefnin. „Ég hefði náttúrulega viljað að kosningabaráttan snerist miklu meira um málefnin og samanburð á málefnum flokkanna, ég ímynda mér að margir í öðrum flokkum geti verið sammála mér um það, en þegar þetta fer svona seint af stað og það koma upp önnur mál sem taka athyglina frá málefnunum er oft lítið við því að gera. En á lokasprettinum fannst mér baráttan færast meira í málefnin og ég var ánægður að sjá það gerast.“

Í nýjustu skoðanakönnunum hefur Miðflokkurinn mælst með á bilinu 9,5% til 11,5% fylgi og gæti náð fimm þingmönnum inn. „Það er ekki hægt að kvarta yfir því. Ef þetta verður eitthvað í samræmi við kannanir væri það náttúrulega bara frábært en ef það væri eitthvað til viðbótar við það væri það bara eitthvað til viðbótar við frábært, hvað sem maður á að kalla það,“ segir Sigmundur.

Spurður um framhaldið og draumaríkisstjórn segist Sigmundur hafa ákveðið að forðast það að spá fyrir um úrslit kosninganna. „Ég hef reynt að forðast tvennt, annars vegar, hjá okkur, þrátt fyrir að ég hafi almennt mjög gaman af því að spá fyrir um úrslit kosninga, þá hef ég forðast það að spá fyrir um úrslitin hjá okkur að þessu sinni, það er kannski einhver hjátrú í því, ég skal ekki segja en ég hef ekki viljað festa mig í einhverri tölu. Hins vegar hef ég reynt að forðast að vera búinn að sjá fyrir mér eða negla niður eitthvert tiltekið stjórnarmynstur, ég held að menn verði bara að meta það þegar við sjáum hvað kemur upp úr kjörkössunum og hvernig landslagið lítur út þá.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert