„Ég get unnið með þennan sáttmála“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunar.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunar. mbl.is/Golli

„Mér líst almennt vel á þetta. Þarna er vel að verki staðið. Þetta er ítarlegur stjórnarsáttmáli og hann er metnaðarfullur og framsýnn og ég bara hlakka til verkefnisins,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, í samtali við mbl.is um fyrirhugaðan stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.

Þingflokkur Sjálfstæðismanna situr nú á fundi í Valhöll þar sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, kynnir endanlega útgáfu sáttmálans fyrir þingmönnum flokksins. Hún fór fyrr af fundinum til þess að mæta í kveðjuhóf í ráðuneytinu. Sagðist hún ekki vita hvort hún yrði áfram ráðherra og fyrir vikið færi það fram.

Stjórnarsáttmálinn tæki á þeim stórum málum sem framundan væru. Ekki síst varðandi uppbyggingu innviða. Spurð hvort hún telji niðurstöðuna ásættanlega fyrir Sjálfstæðisflokkinn segir hún að þarna séu auðvitað þrír ólíkir flokkar að ná saman. Það yrðu vafalaust sjálfstæðismenn sem bæði yrðu ósáttir við eitthvað í sáttmálanum og ánægðir með hann og sama með flokksmenn hinna flokkanna. 

„Ég get unnið með þennan sáttmála og styð hann og tel að formaðurinn hafi staðið sig vel í þessu verkefni. Eins og ég segi hlakka ég til þess og það eiga að vera góðir tímar framundan á Íslandi ef við höldum rétt á spöðunum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert