VG vilja endurreisa verkamannabústaðakerfið

VG kynnir stefnumál sín í borginni. Líf Magneudóttir, oddviti VG, …
VG kynnir stefnumál sín í borginni. Líf Magneudóttir, oddviti VG, segir Reykjavíkurborg eiga að vera gerandi í uppbyggingu húsnæðis í samráði við Verkalýðsfélögin. Ljósmynd/Aðsend

Vinstri græn vilja að Reykjavíkurborg taki höndum saman með verkalýðshreyfingunni á næsta kjörtímabili um að endurreisa verkamannabústaðakerfið og koma böndum á leigumarkaðinn. Haft er eftir Líf Magneudóttir, oddvita VG í borginni, í fréttatilkynningu að Reykjavíkurborg eigi að vera gerandi í uppbyggingu húsnæðis í samráði við Verkalýðsfélögin.

Ástandið á húsnæðismarkaðnum í Reykjavík sé eitt allra brýnasta vandamálið sem blasi við á næsta kjörtímabili. „Borgin þarf að hefja samtal við stjórnvöld um heimildir til þess að hafa stjórn a þróun leiguverðs til að tryggja hag leigjenda. Við þurfum að taka höndum saman með verkalýðshreyfingunni um uppbyggingu leiguhúsnæðis og endurreisn verkamannabústaða. Það vantar fjölbreyttari búsetukosti sem eru ekki á forsendum markaðarins. Við viljum húsnæði fyrir fólk, ekki fjármagn,“ er haft eftir Líf í tilkynningunni.

VG vilji útrýma biðlistum fyrir fólk í brýnni þörf eftir félagslegu leiguhúsnæði og fjölga félagslegum leiguíbúðum um 600 á kjörtímabilinu. Þá vilja Vinstri græn að borgin geri tvíhliða samning við Airbnb um að endurheimta húsnæði sem farið er af langtímaleigumarkaði í útleigu til ferðamanna.

Önnur helstu áherslumál Vinstri grænna eru málefni leikskólanna, kjaramál og umhverfismál. Vilja þau grípa til róttækra aðgerða til að draga úr mengun og sporna gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum, taka fyrir notkun nagladekkja til að útrýma svifryki og taka stærri skref til að Reykjavík nái markmiðum um að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.

Þá vilja VG leggja áherslu á að hafist verði handa við lagningu borgarlínu, hlutur vistvænna samgangna aukinn og fleiri hjólastígar lagðir. Eins verði öllum fjölskyldum í Reykjavík tryggt pláss á borgarreknum leikskólum strax að fæðingarorlofi loknu. „Við verðum að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Það gerum við með opnun ungbarnadeilda í öllum hverfum og með því að tryggja að allir leikskólar séu full mannaðir,“ sagði Líf.

VG kynnir stefnumál sín í borginni. Líf Magneudóttir, oddviti VG, …
VG kynnir stefnumál sín í borginni. Líf Magneudóttir, oddviti VG, segir Reykjavíkurborg eiga að vera gerandi í uppbyggingu húsnæðis í samráði við Verkalýðsfélögin. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert