Gagnrýnir fréttaflutning RÚV

Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins.
Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum alveg róleg á þessum fallega degi,“ segir Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í Reykjavík, í samtali við mbl.is. Hún ræddi við Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, oddvita Viðreisnar, í gær og segir að það hafi farið vel á með þeim.

Hún segir að Miðflokkurinn hafi ekki útilokað neinn í mögulegum meirihlutaviðræðum og skaut í leiðinni á RÚV. „Ég sá skrítna frétt á RÚV í hádeginu þar sem fram kom að Viðreisn hefði útilokað Miðflokkinn. Fréttamenn eiga að flytja fréttir ekki búa þær til.“

Fram kom í frétt á vefsíðu RÚV í hádeginu að Viðreisn hefði útilokað samstarf með Miðflokknum í Reykjavík en fréttin hefur verið leiðrétt.

Þreifa hvert á öðru

Ég talaði við Eyþór á mánudaginn, Þórdísi í gær og er búin að heyra í Kolbrúnu. Við erum búin að þreifa á hvert öðru. Samfylkingin og Vinstri græn útilokuðu Miðflokkinn í kosningabaráttunni þannig að ég reikna ekki með því að heyra í Degi eða Líf,“ segir Vigdís en eins og áður hefur komið fram hugnast henni vel meirihluti Sjálfstæðisflokks, Miðflokks, Viðreisnar og Flokks fólksins.

Hún telur að líkurnar á meirihluta til vinstri hafi minnkað í gærkvöldi þegar Sósíalistaflokkurinn gaf það út að hann myndi ekki taka þátt í meirihlutaviðræðum. „Þeir ætla bara að vera valdalausir en ætluðu samt að færa vald til fólksins. Það er bara þeirra ákvörðun. Rödd þeirra getur heyrst þó þeir séu í minnihluta og það þarf að bera virðingu fyrir því,“ segir Vigdís.

Tekur til á skrifstofunni í dag

Aðspurð segist Vigdís ekki geta metið líkurnar á því að Miðflokkurinn verði í meirihluta með áðurnefndum flokkum. „Ég get ekki metið það því þetta er allt á byrjunarstigi. Ósk okkar í Miðflokknum er að koma saman góðum meirihluta sem vinnur fyrir Reykvíkinga.

Vigdís fullyrðir að Miðflokksfólks hafi ekki verið boðað á neina fundi með öðrum flokkum í dag. „Við ætlum að hittast nokkur í flokknum og taka til á kosningaskrifstofunni á eftir. Ég hef ekki verið boðuð á fund í dag. Klukkan er líka ekki orðin þrjú,“ segir Vigdís og hlær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert