„Alsjáandi augu“ auka heiðarleikann

Hafi fólk á tilfinningunni að fylgst sé með því er það líklegra til að breyta heiðarlega, jafnvel þótt augun sem horfa á það séu ekki raunveruleg. Er þetta niðurstaða nýrrar rannsóknar sem gerð var í Háskólanum í Newcastle.

Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC, en niðurstöður rannsóknarinnar eru birtar í vísindaritinu Biology Letters.

Vísindamenn fylgdust með því hversu mikið fólk setti í „heiðarleikakassa“ þegar það keypti sér drykk í kaffiteríu í háskólanum, og í ljós kom að fólk setti allt að þrefalt hærri upphæð í kassann þegar mynd af augum var sett á vegginn fyrir ofan hann en þegar mynd af blómum var sett þar upp.

Dr Melissa Bateson, atferlislíffræðingur við skólann og aðalhöfundur rannsóknarinnar, segir að líklega hafi myndin af augunum áhrif á hegðun fólks, jafnvel þótt það geri sér ekki grein fyrir því, þannig að það fær á tilfinninguna að fylgst sé með því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert