Líkamsleifar Jóhönnu af Örk reyndust egypsk múmía

Egypsk múmía. Múmíur voru notaðar í lækningaskyni í Evrópu á …
Egypsk múmía. Múmíur voru notaðar í lækningaskyni í Evrópu á miðöldum AP

Hópur sérfræðinga hefur úrskurðað að líkamsleifar sem talið hefur verið að séu af frönsku þjóðhetjunni og dýrlingnum Jóhönnu af Örk, séu í raun leifar af egypskri múmíu og líksmurðum ketti. Talið er að apótekari hafi á nítjándu öld staðið að baki blekkingunni í þeim tilgangi að auka mikilvægi páfablessunar á Jóhönnu.

Því hafði verið haldið fram að rifbein, klæðisbútur og kattarlærleggur hefðu verið tekin úr bálkestinum sem Jóhanna var brennd á árið 1431 í bænum Rouen í Normandí. Þau áttu svo að hafa verið geymd í apóteki í bænum allt fram til ársins 1867 þegar til leifarnar voru afhentar erkibiskupsdæminu í Tours.

Vísindamenn úrskurðuðu árið 1909, sama ár og Jóhanna af Örk fékk blessun páfa, að afar líklegt væri að raunverulega væri um líkamsleifar Jóhönnu að ræða. Það var ekki fyrr en á síðasta ári sem nokkur véfengdi þær kenningar, þegar 20 vísindamenn frá Frakklandi, Sviss og Benín, hófu að rannsaka fornleifarnar.

Niðurstöðurnar, sem nýlega voru birtar, eru á þá leið að bæði manns- og kattarbeinin séu frá 7. til 8. öld fyrir krists burð, en bæði höfðu þau fengið líksmurningu, líkt og tíðkaðist í Egyptalandi til forna.

Á miðöldum tíðkaðist að nota múmíur sem malaðar höfðu verið í duft í lækningaskyni til að meðhöndla ýmsa sjúkdóma, en þar mun líklega liggja skýringin á því hvernig múmíubeinin höfnuðu í apótekinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert