Brugghús framleiðir rafmagn

Rafmagn verður nú aukabúgrein hjá áströlskum bruggurum.
Rafmagn verður nú aukabúgrein hjá áströlskum bruggurum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ástralskir vísindamenn vinna nú með brugghúsinu sem býr til Fosters-bjór að verkefni sem miðar að því að framleiða rafmagn úr úrgangsvatni sem fellur til við bjórframleiðslu. Vísindamenn við Queensland háskóla fengu ríkisstyrk til að þróa leið til að virkja bakteríur sem nærast á sykri, sterkju og alkóhóli í skolvatninu.

Verkefnið var kynnt í morgun og þar segir að auk þess að framleiða rafmagn hreinsa bakteríurnar vatnið.

Til stendur að smíða rafhlöðu sem tekur 2.500 lítra af vatni en fram til þessa hefur verkefnið stuðst við niðurstöður úr 250 sinnum smærri rafhlöðu sem rekin hefur verið með góðum árangri í þrjá mánuði.

Reiknað er með að rafhlaðan muni framleiða 2 kílóvött sem er nóg til að sjá tveimur heimilum fyrir rafmagni. Byrjað verður á einu brugghúsi á vegum Fosters en meiningin er að koma slíkum rafhlöðum upp í fleiri brugghúsum og vínátöppunarverksmiðjum í eigu Fosters.

Forsvarsmaður verkefnisins sagði að það væri ekki mikið magn af rafmagni sem um væri að ræða en fyrst og fremst væri það hreinsun skol- og úrgangsvatns sem málið snérist um.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert