Reynt að forða Síberíutígrisdýrum frá útrýmingu

Þrír ungar ásamt móður sinni í Síberíutígrisdýragarðinum í Harbin í …
Þrír ungar ásamt móður sinni í Síberíutígrisdýragarðinum í Harbin í norðausturhluta Kína. AP

Kínverskir embættismenn segja, að 84 Síberíutígrisdýraungar hafi komið í heiminn frá því í mars í rannsóknarstofnun í norðausturhluta Kína. Þá hafi 13 læður til viðbótar fest fang og því ættu 20 til 30 ungar að fæðast í sumar. Síberíutígrisdýr eru í mikilli útrýmingarhættu en aðeins er talið að um 400 slík dýr séu úti í náttúrunni.

Síberíutígrisdýr, sem einnig eru nefnd amurtígrisdýr eða ussuritígrisdýr, hafast við í Kína og Rússlandi. Talið er að aðeins um 20 villt dýr séu í Kína. Þetta er stærsta tígrisdýrategund heims og dýrin vega allt að 270 kíló.

Landnám manna hefur þrengt mjög að Síberíutígrisdýrum og þau eru einnig eftirsótt bráð veiðiþjófa, sem sækjast eftir húðum og beinum til að framleiða úr hefðbundin kínversk lyf.

Að sögn fréttastofunnar Xinhua er stefnt að því að nokkrir unganna, sem komið hafi í heiminn, verði þjálfaðir með það fyrir augum að hægt verði að sleppa þeim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert