Svíi sektaður fyrir að dreifa bíómyndum á netinu

Dómstóll í sænska bænum Linköping hefur dæmt 31 árs gamlan Svía til að greið 10 þúsund sænskar krónur, jafnvirði 127 þúsund íslenskra króna, fyrir að setja 30 kvikmyndir og 4500 tónlistarskrár á netið þar sem aðrir gátu sótt skrárnar.

Það voru m.a. alþjóðleg samtök hljómplötuframleiðenda og kvikmyndaverin Buena Vista, Warner, SF and Nordisk Film, sem kærðu Svíann en málið var rekið af ríkissaksóknara. Svíinn var dæmdur til að greiða eigin málskostnað, jafnvirði um 570 þúsund íslenskra króna, um hluta af kostnaði saksóknarans.

Í niðurstöðu réttarins segir, að þær sektir, sem til þessa hafi verið ákveðnar í samsvarandi málum, endurspegli það tjón sem dreifing af þessu tagi valdi. Það sé hins vegar löggjafans að taka nauðsynlegar ákvarðanir og kvikmynda- og hljómplötuútgefendur hafi einnig ákveðnar skyldur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert