Andlitslyfting Facebook óvinsæl

Facebook er einn vinsælasti samskiptavefur heims
Facebook er einn vinsælasti samskiptavefur heims Chris Jackson

Breytingar á uppsetningu Facebook samskiptavefjarins hafa farið heldur ill í marga notendur og fjölgar sífellt skráningum í hópa þar sem andlitslyftingunni er mótmælt.

Breytingarnar voru fyrst opinberaðar í júlí og var notendum þá boðið upp á að velja á milli gömlu eða nýju uppsetningarinnar. Nú er sá reynslutími liðinn og fyrir rúmri viku var gamla útlitinu alfarið hent út og hið nýja þvingað upp á alla notendur. Mark Slee, framleiðslustjóri Facebook, segir að með breytingunni sé ætlunin að gera Facebook einfaldari, stílhreinni, markvissari og auðveldari í notkun. Margir notendur eru hinsvegar á þeirri skoðun að það hafi misheppnast hrapalega, vefurinn, sem áður hafi verið fágaða útgáfan af Myspace, sé nú óaðgengilegri en nokkru sinni.

Fjölmargir undirskriftalistar eru nú í gangi á Facebook, þar sem þess er krafist að gamla uppsetningin verði áfram aðgengileg fyrir þá sem það vilja, og telja fjölmennustu listarnir nú á aðra milljón notenda.

Ólíklegt verður þó að teljast að stjórnendur Facebook verði við beiðninni miðað við fyrstu viðbrögð úr þeirra herbúðum. Þar bíða menn þess að mótmælabylgjan gangi yfir og notendur venjist breytingunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert