Fimm milljarða dala svik

Svikahrapparnir stunduðu viðskipti sín á milli með greiðslukortanúmer og bankaupplýsingar …
Svikahrapparnir stunduðu viðskipti sín á milli með greiðslukortanúmer og bankaupplýsingar á sérstökum spjallrásum. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. Reuters

Þjófar, sem búa yfir talsverðri tæknikunnáttu og sérhæfa sig í greiðslukortasvikum, hafa svikið út fé sem nemur rúmum fimm milljörðum Bandaríkjadala. Þess má geta að þetta er nánast sama upphæð og IMF og Norðurlandaþjóðirnar hyggjast lána Íslandi til að  koma á efnahagsstöðugleika hérlendis.

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem hugbúnaðar- og hönnunarfyrirtækið Symantec stóð að. Fyrirtækið fylgdist með neðanjarðarhagkerfi netsins í eitt ár og reiknaði út umfang fjársvikanna.

Þar segir að greiðslukortanúmer hafi notið mestra vinsælda, eða sem nemur 31% af öllu því sem var boðið til sölu.

Í öðru sæti voru bankaupplýsingar sem námu um 20% af öllu því sem var til sölu. Viðskiptin fóru fram á spjallrásum sem glæpamennirnir notuðu, að því er fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins

Fram kemur að Symantec hafi fengið út töluna 5,3 milljarðar dala með því að margfalda meðalupphæðina sem er svikin út af hverju greiðslukorti fyrir sig (350 dalir) með þeim milljónum greiðslukortanúmera sem voru til sölu.

Þá kemur fram í skýrslu Symantec að ef þjófarnir hefðu látið til skarar skríða og svikið út peninga af öllum þeim bankareikingnum sem stóðu þeim til boða, þá hefðu þeir getað tekið út sem nemur 1,7 millljörðum dala.

Symantec bendir hins vegar á að mörg greiðslukortanna, sem voru boðin til sölu, séu ekki lengur í gildi, auk þess sem búið sé að loka mörgum bankareikningum. „Þessar tölur eru vísbending um virði neðanjarðarhagkerfisins og mögulegt verðmæti markaðarins,“ bendir Symantec hins vegar á í skýrslunni.

Þar segir að greiðslukortanúmer njóti mikilla vinsælda meðal þjófa vegna þess hve auðvelt sé að koma höndum sínum yfir upplýsingarnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert