Missa svefn vegna ástandsins

Bandaríkjamenn eru byrjaðir að missa svefn vegna efnahagsástandsins
Bandaríkjamenn eru byrjaðir að missa svefn vegna efnahagsástandsins Reuters

Yfir fjórðungur Bandaríkjamanna missir orðið svefn vegna efnahagsástandsins á sama tíma og landið berst við versta samdráttarskeið sem þjóðin hefur upplifað síðan á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar, samkvæmt nýrri rannsókn.

Rannsóknin, sem var unnin af bandarísku svefnrannsóknarstofnuninni, National Sleep Foundation, sýnir fram á að 27% Bandaríkjamanna hafa átt í erfiðleikum með svefn margar nætur í viku undanfarinn mánuð.

Flestir þeirra hafa áhyggjur af persónulegum fjárhag, efnahagsástandinu í landinu, atvinnuöryggi og kostnaði við heilbrigðisþjónustu.

Varar stofnunin við því að fólk láti efnahagsástandið hafa áhrif á svefn þar sem það geti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér hvað varðar heilsuna.

Rannsóknin leiddi einnig í ljós að þeir sem fengu nægan svefn eru tvöfalt líklegri til að skila betra starfi, borða hollari fæðu og hreyfa sig. Alls tóku eitt þúsund fullorðnir einstaklingar þátt í rannsókninni.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert