Sýnir myndir af „berum“ farþegum

Nýja tækið á að hraða öllu eftirliti. En farþegar þurfa …
Nýja tækið á að hraða öllu eftirliti. En farþegar þurfa t.d. ekki að fara úr yfirhöfnum eða taka af sér skóna, líkt og flestir flugfarþegar kannast við í dag. Reuters

Tilraunir eru hafnar með sérstakan skanna sem sýnir myndir af „berum“ farþegum á flugvellinum í Manchester. Að sögn flugvallaryfirvalda mun tækjabúnaðurinn hraða öllu eftirliti, en á myndum sést strax hvort viðkomandi einstaklingur sé með falin vopn eða sprengiefni.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins að tækið muni einnig sýna hvort viðkomandi hafi farið í brjóstastækkun, sé með pinna í líkamanum og þá sjást útlínur kynfæra farþegans í svarthvítu.

Hér má sjá hvernig tækið virkar.

Flugvallaryfirvöld hafa hins vegar lagt ríka áherslu á að myndirnar séu ekki klámfengnar. Aðeins einn starfsmaður sjái myndirnar og þeim sé síðan samstundis eytt. 

Þau segja að meirihluti flugfarþega sé illa við að láta leita á sér með hefðbundnum hætti.

Nýja tækið er í flugstöð 2 á flugvellinum í Manchester. Þar þurfa farþegar ekki lengur að fara úr yfirhöfnum, taka af sér skóna og belti er þeir fara í gegnum öryggishliðið. Sé farþegum illa við þetta mega þeir afþakka og fara í gegnum hefðbundna leit.

Þess má geta að  farþegar Icelandair, sem flýgur til borgarinnar, nota flugstöð 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert