Stærð heilasvæða ræður stjórnmálaskoðunum

Ný rannsókn bendir til þess að stærð svonefnds möndlungs, möndlulaga svæði í miðju heilans, ráði því hvort viðkomandi einstaklingar eru hægrisinnaðir eða vinstrisinnaðir. Starfsemi möndlungsins er talin tengjast kvíðatilfinningu og ótta.

Vísindamenn hjá University College London unnu rannsóknina og komust að þeirri niðurstöðu, að þeir einstaklingar, sem hafa íhaldssamar skoðanir, eru með stærri möndlung en þeir sem eru skilgreindir sem vinstrisinnar. Þá var svæði fremst í heilanum, sem tengist hugrekki og bjartsýni, minna.

Vísindamenn tóku sneiðmyndir af heilum tveggja breskra þingmanna, þeirra Stephens Pounds, þingmanns Verkamannaflokksins, og Alans Duncans, þróunarmálaráðherra Íhaldsflokksins, auk um 90 námsmanna. Var niðurstaðan sú, að beint samband væri  milli stærðar þessara tvegja svæða í heilanum og stjórnmálaskoðana sjálfboðaliðanna.  

Ekki er samt fullyrt hvort viðkomandi hafi fæðst svona eða hvort lífsreynsla einstaklinganna hafi haft áhrif á stærð heilasvæðanna.  

Á vef Daily Telegraph er haft eftir Geraint Rees, sem stýrði rannsókninni, að niðurstöðurnar hafi komið á óvart.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert