Rafbílar í vörn í Kína

Úr umferðinni í Peking.
Úr umferðinni í Peking. Reuters

Kínverjar hafa sýnt tvinnbílnum Toyota Prius svo lítinn áhuga að aðeins eitt eintak af bílnum seldist í þessu fjölmennasta ríki heims í fyrra. Áætlanir um rafbílavæðingu á þessum stærsta bílamarkaði veraldar eru í uppnámi.

Breska dagblaðið Guardian segir frá þróuninni á kínverska bílamarkaðnum en tilefnið er að Kína fór í mánuðinum fram úr Bandaríkjunum sem stærsti markaður fyrir ökutæki í heiminum.

Litið hefur verið til áhuga kínverskra stjórnvalda á rafbílum sem vísbendingar um að styttra geti verið í innleiðingu slíkrar tækni en svartsýnismenn hafa talið.

Nú eru hins vegar blikur á lofti. Útbreiðsla rafbíla er ekki í takti við áætlanir stjórnvalda og hefur BYD, einn stærsti framleiðandi rafhlaðna í heiminum, dregið úr framleiðslu á rafbílum vegna þess að erfiðlega gengur að finna kaupendur vegna kostnaðar. Var bandaríski fjárfestirinn Warren Buffett í hópi þeirra sem höfðu mikla trú á fyrirtækinu en hann á talsverðan hlut í því.

Á sama tíma hafa selst 850.000 eyðslufrek ökutæki í Kína í ár og er það aukning um 24% frá fyrra ári.

Til samanburðar settu kínversk stjórnvöld sér það markmið að milljón rafbílar og tengiltvinnbílar yrðu komnir í umferð árið 2015, markmið sem nú er talið óraunhæft.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert