Offitusprenging í Bandaríkjunum

Miðað við rannsóknina þá þurfa sífellt fleiri að nota stærri …
Miðað við rannsóknina þá þurfa sífellt fleiri að nota stærri fatnað en áður Reuters

Annar hver Bandaríkjamaður á fullorðinsaldri mun þjást af offitu árið 2030, samkvæmt nýrri rannsókn sem birt verður í læknaritinu Lancet á morgun. Þetta þýðir stóraukinn kostnað í heilbrigðiskerfi landsins.

Miðað við stöðu mála í dag er útlit fyrir að 50-51% bandarískra karla og 45-52% kvenna verði með BMI stuðul hærri en 30 en stuðullinn er áreiðanleg vísbending um heildarfitumagnið í líkamanum. Það þýðir að yfir 65 milljónir Bandaríkjamanna muni berjast við offitu eftir tæp tuttugu ár. Af þeim verða 24 milljónir sextíu ára og eldri. Miðað við tölur frá árunum 2007-2008 voru 32% Bandaríkjamanna of þungir.

Samkvæmt rannsókninni er útlitið einnig dökkt hvað varðar Breta en nú eru 26% Breta of þung en 41-48% breskra karla mun glíma við offitu árið 2030 og 35-43% kvenna. Það þýðir að 11 milljónir Breta verði of feitir árið 2030, þar af 3,3 milljónir sem eru eldri en 60 ára. 

Rannsóknin var unnin við Columbia-háskólann í New York og Oxford-háskóla. Telja þeir sem unnu að rannsókninni að þetta þýði mun meiri læknis- og lyfjakostnað þar sem tengsl séu á milli offitu, sykursýki, krabbameins, hjartasjúkdóma og heilablóðfalls.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert