Fundu plánetu með tvær sólir

Logi geimgengill og félagar á Tatooine.
Logi geimgengill og félagar á Tatooine. Reuters

Geimvísindamenn hafa fundið plánetu sem gengur á braut um tvær stjörnur. Er plánetan í um 200 ljósára fjarlægð frá sólkerfi okkar og fundu vísindamenn hana með Kepler-stjörnusjónaukanum.

Margir hugsa eflaust til Tatooine, heimkynna Loga geimgengils í Stjörnustríðsmyndunum, þegar þeir heyra um stjörnuna Kepler-16b en hún gekk einnig um tvær sólir. Ólíkt heimaplánetu Loga sem var steikjandi heit og sendin er Kepler-16b ískaldur hnöttur á stærð við Satúrnus. Er hitinn á yfirborði plánetunnar á bilinu -73 til -101 gráður á selsíus.

Kuldinn stafar af því að þó að plánetan gangi á braut um tvær stjörnur eru þær báðar minni og kaldari en sólin okkar. Önnur þeirra er aðeins fimmtungur af stærð sólarinnar en hin er um 70% af stærð hennar.

„Þessi uppgötvun er sláandi. Enn og aftur hefur það sem áður var talið vísindaskáldskapur orðið að veruleika,“ segir Alan Boss, einn geimvísindamannanna. Þó að vísindamenn hafi áður talið sig hafa fundið plánetur sem ganga á braut um tvær stjörnur höfðu þeir aldrei fengið endanlega staðfestingu á því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert