Ásókn í Diablo 3 olli hruni

Í Diablo stjórnar leikmaðurinn ólíkum hetjum í stríðinu við hið …
Í Diablo stjórnar leikmaðurinn ólíkum hetjum í stríðinu við hið illa Blizzard Entertainment

Þriðja útgáfa af Diablo tölvuleiknum var gefin út í vikunni sem tölvuleikjarisinn Blizzard framleiðir. Ríflega áratugur er síðan önnur útgáfa leiksins kom út, seldist í tæplega 20 milljónum eintaka og vann til fjölda verðlauna. Leikurinn er hasar- og hlutverkaleikur þar sem leikmaðurinn kannar framandi dýflissur og hittir þar fyrir hin ýmsu skrímsli og kynjaverur.

Til að spila leikinn þarf leikmaðurinn að auðkenna sig með innskráningu en opnað var fyrir innskráningar á sama tíma í öllum löndum Evrópu. Þúsundir leikmanna reyndu þá að skrá sig inn í leikinn með þeim afleiðingum að netþjónar framleiðanda leiksins þoldu ekki álagið og hrundu að því er breska blaðið Guardian greinir frá. Óþreyjufullir aðdáendur leiksins þurftu því að bíða ögn lengur en áætlað var eftir því að geta spilað hann.

Að sögn Arnar Barkarsonar, vörustjóra afþreyingarefnis hjá Elko, var eftirvæntingin eftir þessari þriðju útgáfu leiksins mikil og hafði nokkur fjöldi þannig forpantað hann hjá versluninni. „Við höfum ekki séð svona góðar viðtökur við PC-leik síðan aukapakki fyrir World of Warcraft kom út“ sagði Örn og bætti við að verslunin hefði verið með sérstaka kvöldopnun þar sem nokkur hundruð spilarar hafi komið og þegið veitingar um leið og þeir tryggðu sér eintak af leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert