Hluti heilans minnkar við áföll

Skjálftinn og flóðbylgjan ollu gríðarlegri eyðileggingu og manntjóni.
Skjálftinn og flóðbylgjan ollu gríðarlegri eyðileggingu og manntjóni. ISSEI KATO

Tilfinningaleg streita af völdum flóðbylgjunnar í Japan í fyrra olli því að hluti heila eftirlifendanna skrapp saman. Þetta segja japanskir vísindamenn sem hafa rannsakað taugafræðileg áhrif sálrænna áfalla.

Vísindamennirnir vildu öðlast betri skilning á áfallastreituröskun (e. post-traumatic stress disorder, PTSD). Þeir báru saman skannmyndir af heilum 42 unglinga, sem upphaflega voru notaðar í öðrum rannsóknum tveimur árum áður en jarðskjálftinn reið yfir í Japan þann 11. mars 2011, við samskonar myndir af sömu unglingunum sem voru teknar þremur til fjórum mánuðum eftir skjálftann. Um 19 þúsund manns létust í jarðskjálftanum og flóðbylgjunni sem skall á norðausturströnd landsins í kjölfarið.

Í ljós kom að börkur augntóttarhluta ennisblaða (e. orbitofrontal cortex) hafði skroppið saman hjá þeim sem sýndu einkenni áfallastreituröskunar. Sá hluti heilans hefur með ákvarðanatöku og stjórn tilfinninga að gera. Frá þessu er greint í tímariti Nature, Molecular Psychiatry (ísl. Sameindageðlæknisfræði).

„Breytingin á rúmmáli barkar augntóttarhluta ennisblaða samsvarar alvarleika einkenna áfallastreituröskunarinnar,“ segir vísindamaðurinn Atsushi Sekiguchi. Fyrri rannsóknir höfðu gefið til kynna að breytingar yrðu á heilum fólks með áfallastreituröskun en þessi er sú fyrsta sem segir til með nákvæmum hætti hvaða hluti heilans það er sem bregst við streitunni. Hún leiddi einnig í ljós að fólk með fremur smáa fremri gyrðilsfellingu (e. anterior cingulate gyrus) er líklegra til að þjást af áfallastreituröskun en aðrir.

Talið er að niðurstöður þessarar rannsóknar muni auðvelda læknum að greina áfallastreituröskun og þannig veita sjúklingum viðeigandi aðstoð sem fyrst. 

„Við teljum að þessar breytingar séu ekki varanlegar, því margar fyrri rannsóknir sýna að heilinn jafnaði sig með læknismeðferðum.“

Einkenni áfallastreituröskunar eru m.a. mikið þunglyndi, tilfinningadoði, einbeitingarleysi, svefnleysi og þrálátar endurminningar eða endurupplifanir á formi leiftursýna. Fólk með röskunina upplifir oft mikla vanlíðan þegar það upplifir áreiti sem tengist eða líkist áfallinu.

Unglingarnir 42 höfðu verið greindir með mismikla áfallastreituröskun. Þeir bjuggu allir í borginni Sendai sem varð einna verst úti í jarðskjálftanum og flóðbylgjunni. Nokkrum klukkustundum eftir skjálftann, sem mældist 9 á Richter, varð mikil sprenging  í olíuhreinsistöð í borginni og varð öflugra eftirskjálfta vart þar næstu vikurnar á eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert