Karlmenn líklegri til að lifa af skipskaða

Rannsóknin nær frá árinu 1852 til ársins 2011. Hún tekur …
Rannsóknin nær frá árinu 1852 til ársins 2011. Hún tekur ekki til þess þegar Costa Concordia, sem sést á myndinni, lagðist á hliðina eftir að hafa steytt á skeri fyrr á þessu ári. AFP

Það er lítið hæft í því að konum og börnum sé fyrst komið til bjargar þegar skip ferst á hafi úti. Þetta segja sænskir vísindamenn sem hafa rannsakað 18 sjóslys. Niðurstöður þeirra sýna fram á að karlmenn reyni fyrst og fremst að bjarga eigin skinni.

Þegar farþegaskipið Titanic sökk fyrir 100 árum komust 70% kvenna og barna lífs af en aðeins 20% karla um borð. Vísindamennirnir segja að Titanic sé undantekningin frá reglunni.

Niðurstöður þeirra birtust í vísindaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences.

Þar segir að skipstjórinn og áhöfn skipsins reyni fyrst að koma sér í öruggt skjól. Þá kemur fram að karlar séu tvöfalt líklegri en konur til að komast lífs af en staða barna er verst.

Elsti skipskaðinn sem vísindamennirnir skoðuðu teygir sig aftur til ársins 1852 og sá nýjasti er frá því í fyrra. Um er að ræða yfir 15.000 farþega og fólk úr áhöfn skipanna frá yfir 30 löndum.

Rannsóknin nær ekki til ítalska farþegaskipsins Costa Concordia sem steytti á skeri við vesturströnd Ítalíu fyrr á þessu ári. Skipstjóri farþegaskipsins hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að hafa yfigefið skipið á undan öllum öðrum, en alls voru 4.200 manns um borð í skipinu. 32 létust þegar skipið lagðist á hliðina.

Rannsókn vísindamannanna sýnir fram á að þessi hegðun sé alls ekki svo óvenjuleg.

Gögnin sýni að áhafnarmeðlimir séu líklegri til að komast af en farþegar og að aðeins níu af 16 skipstjórum hafi farist með skipunum sem þeir stýrðu.

Lífslíkur farþeganna aukast til muna ef skipstjórinn gerir fólki viðvart.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert