Miklagjúfur mun eldra en talið var

Á göngu um Miklagjúfur.
Á göngu um Miklagjúfur. mbl.is

Þegar komið er að Miklagljúfri í Bandaríkjunum stendur á upplýsingaskiltum að það hafi myndast fyrir 6 milljónum ára. Hópur vísindamanna heldur því nú fram að gljúfrið hafi myndast er risaeðlur gengu um jörðina eða fyrir um 70 milljónum ára, að því er fram kemur í frétt The Guardian.

Gljúfrið sem Coloradoá fellur um er um 450 kílómetra langt, allt að 29 km breitt og 1,6 km að dýpt.

Hingað til hafa flestir haldið því fram að gljúfrið hafi myndast að mestu fyrir um sex milljónum ára og sé því, jarðfræðilega séð, frekar ungt.

En hafi það myndast á krítartímabilinu, fyrir um 70 milljónum ára, munu risaeðlur hafa gengið um gljúfrið.

Deilan er grunninn á milli ungs vísindamanns og eldri og reyndari samstarfsmanna hans. Með nýjum rannsóknaraðferðum telur hin 36 ára gamla Rebecca Flowers, jarðfræðingur við Háskólann í Colorado, megi aldursgreina berg með mun nákvæmari hætti en áður.

„Samkvæmt okkar gögnum hefur Miklagljúfur verið til í um 70 milljónir ára,“ segir Flowers um rannsóknina sem birt hefur verið í vísindatímaritinu Science. „Við vitum að þessi niðurstaða okkar á eftir að verða umdeild.“

Það er rétt ályktun hjá Flowers, niðurstöðurnar hafa fengið vægast sagt óblíðar móttökur frá jarðfræðingum sem halda því fram að gljúfrið sé mun yngra.

„Þetta er einfaldlega fáránlegt,“ segir hinn 61 árs gamli jarðfræðingur við Háskólann í Nýju-Mexíkó, Karl Karlström. Hann hefur farið oftar 50 sinnum um allt gljúfrið og átt þátt í að búa til sýningu um sögu gljúfursins í þjóðgarðinum sem það er í.

Fleiri reyndir jarðvísindamenn taka undir með Karlström.

Flowers og félagar segja að vestasti hluti gljúfursins hafi myndast fyrir um 70 milljónum ára. Austari hluti gljúfursins sé um 55 milljóna ára gamall. Sitt hvor áin hafi átt þátt í að mynda þessa hluta gljúfursins.

Síðar hafi Coloradoáin fundið sér farveg í gljúfrinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert