Blóðsugur - allra meina bót?

Blóðsugur gagnast á ýmsan hátt í nútímalækningum.
Blóðsugur gagnast á ýmsan hátt í nútímalækningum.

Blóðsugur gagnast á ýmsan hátt í nútímalækningum. Þessi ævaforna lækningaaðferð, að láta þessi illa þokkuðu smádýr sjúga blóð úr sjúklingum, gagnast til dæmis vel við lýta- og handarskurðlækningar. Þá hafa Hollywood-stjörnurnar notað þessa aðferð í fegrunarskyni.

Vilhjálmur Ari Arason læknir tók þátt í blóðsugulækningum á Slysa- og bráðamóttöku Landspítalans fyrir um 20 árum og segir frá því á bloggsíðu sinni. Blóðsugurnar voru pantaðar hingað sértaklega í því skyni að bjarga blóðflæði í nýágræddum fingri á unga stúlku sem hafði lent með fingurna í flökunarvél.

Sérstaklega ræktaðar blóðsugur

„Í dag er blóðsugumeðferð viðurkennd meðferð í lýta- og handarskurðlækningum og  bandarísk heilbrigðisyfirvöld samþykktu sölu á blóðsugum í lækningaskyni árið 2004, eins og þegar um aðrar viðurkenndar lækningavörur eða lyf er að ræða,“ segir Vilhjálmur. Hann segir að ekki sé hér um að ræða villtar blóðsugur úr náttúrunni, heldur séu þær ræktaðar sérstaklega í þessum tilgangi og að þeim sé fargað eftir notkun. 

Vilhjálmur segist ekki vita til þess að verið sé að nota blóðsugur í lækningaskyni hér á landi um þessar mundir.

„Blóðsugur í lækningaskyni hafa fylgt manninum frá forsögulegum tíma. Núna er þetta viðurkennt í hjálækningum sem verkjameðferð. En einnig í hefðbundnum lækningum, einkum í lýtalækningum. Mörg dæmi sanna gagnsemina og menn horfa til þess að þetta gæti gagnast á margan hátt,“ segir Vilhjálmur.

Blóðþynnandi, deyfandi og sýkladrepandi

Áður fyrr var því trúað að blóðsugur sygju óhreint blóð úr líkamanum, en Vilhjálmur segir ekki hafa verið sýnt fram á lækningamátt þess. „Aftur á móti hefur komið í ljós önnur gagnleg virkni þeirra sem felst í því að  tæma gamalt blóð og niðurbrotsefni úr vef sem ekki nær að endurnýjast með eðlilegum hætti og blóðrásin er sködduð. Slímið eða munnvatnið sem kemur úr munni blóðsuganna við bitið hefur blóðþynnandi, deyfandi og sýkladrepandi áhrif sem eykur síðan blóðflæðið í vefnum allt þar í kring. Svo er verið að rannsaka ýmis önnur efni í munnvatninu,“ segir Vilhjálmur.

Fegrunarráð Demi Moore

Vilhjálmur segir að heimildir hermi að Kleópatra Egyptalandsdrottning hafi notast við blóðsugur til að auka frjósemi sína. „Svo hef ég heyrt að Demi Moore hafi löngum stundað þessar lækningar sér til fegrunar og yngingar.“

Vilhjálmur Ari Arason læknir.
Vilhjálmur Ari Arason læknir. Þorkell Þorkelsson
Demi Moore.
Demi Moore. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert