Íslenskur hugbúnaður fyrir friðhelgi einkalífs

Uppljóstranir Edward Snowdens urðu m.a. til þess að Mailpile verkefnið …
Uppljóstranir Edward Snowdens urðu m.a. til þess að Mailpile verkefnið hefur fallið í góðan jarðveg netnotenda. AFP

Þrír Íslendingar hafa undanfarið unnið að því að skrifa hugbúnað sem bætir friðhelgi einkalífs fólks á netinu, með því að einfalda notkun dulritunar í tölvupósti.

Þeir segja að uppljóstranir Edwards Snowdens hafi hjálpað til við að vekja athygli á hugmyndinni, því á innan við viku hafa þeir safnað yfir 6 milljónum króna í styrktarherferð til verkefnisins.

Markmið verkefnisins er að bjóða upp á raunhæfan valkost við miðstýrð tölvupóstkerfi Google, Microsoft og annarra bandarískra stórfyrirtækja. 

Léleg staða friðhelgi einkalífs

Bjarni Rúnar Einarsson tölvunarfræðingur er upphafsmaður verkefnisins, en með honum eru þeir Smári McCarthy og Brennan Novak. Verkefnið hófst að sögn Bjarna fyrir tveimur árum. 

„Við höfum allir þrír verið frekar pirraðir yfir stöðu friðhelgi einkalífs og fórum að ræða leiðir til þess að bæta ástandið í þeim málum. Tölvupóstur er eiginlega mikilvægasta samskiptatækið sem fólk notar. Aðrar samskiptasíður eins og til dæmis Facebook eru allar í einkaeigu, á meðan tölvupóstur er ennþá opinn og staðlaður og það er hægt að grípa inn í hann. Við erum því hreinlega að gera nýtt tölvupóstforrit sem tekur aðra nálgun en áður hefur verið.“

Snowden hjálpar til

Uppljóstranir Snowdens hafa haft jákvæð áhrif á fjársöfnunina. „Við höfum auðvitað haft áhyggjur af friðhelgi einkalífs frá því löngu áður en Snowden kom fram á sjónarsviðið. Það sem Snowden afhjúpaði kom okkur ekkert á óvart. En athyglin sem málið fékk í fjölmiðlum hefur auðvitað leitt til þess að fólk er áhugasamt um verkefnið okkar. Þetta hefði eiginlega ekki getað verið betur tímasett,“ segir Bjarni. 

Snúið aftur til fyrri tíma

Bjarni segir aðalmuninn á þeirra tölvupóstforriti og gömlu forritanna snúast um áherslur.  „Næstum öll nýsköpun sem á sér stað í tölvugeiranum í dag snýst um það sem er kallað 'skýið' (e. cloud). Það eru þjónustur á netinu sem menn nálgast í gegnum vafra en þá eru gögnin þín geymd hjá þriðja aðila.

„Það getur verið mjög slæmt fyrir þig að gögnin þín séu geymd hjá þriðja aðila sem er jafnvel í öðru landi, með öðruvísi lagaumhverfi og því getur verið erfitt eða jafnvel ógerningur að leita réttar þíns. Okkar nálgun er svolítið gamaldags þar sem þú keyrir hugbúnaðinn á þinni tölvu og ert með gögnin þín hjá þér. Svona var þetta þegar netið fór af stað og við erum að hverfa svolítið aftur til þess tíma.“

Léleg tæki til dulkóðunar

„Síðan erum við að skoða aukna dulritun og stærðfræðina sem er notuð til þess að tryggja samskipti á netinu. Það hafa lengi verið til mjög öflugir staðlar til þess að dulrita tölvupóst, en af einhverjum ástæðum hafa þeir ekki náð útbreiðslu og fólk er ekki að nota þessa dulritun dagsdaglega, og við viljum meina að það sé vegna þess að viðmótið sé svo slæmt. Þú þarft í raun að vera sérfræðingur til þess að geta dulritað póstinn þinn, og meira að segja sérfræðingar geta gert mistök því viðmótið er svo lélegt.“ 

Ferðast um heiminn og þjálfar fólk í dulkóðun

Bjarni bendir á að Smári McCarthy, sem starfað hefur með Bjarna að verkefninu, hefur verið að ferðast um heiminn til þess að kenna fólki dulkóðun, meðal annars fólki sem er mikið á átakasvæðum og þarf á netöryggi að halda. Segir hann að reynsla Smára sé að verkfærin sem notuð eru til dulkóðunar séu vandamál og jafnvel alveg óskiljanleg. 

Fjármögnun verkefnisins stendur til 10. september 2013 og vonast hópurinn til að ná að safna 100.000 dollurum til þess að fjármagna eins árs þróun hugbúnaðarins. Verkefnið var kynnt á OHM-ráðstefnunni í Hollandi í ár og hlaut góðar undirtektir auk þess sem það breiddist fljótt út á samskiptavefnum Twitter. 

Söfnunin er á heimasvæði Indiegogo og er þar hægt að sjá hversu há upphæðin er sem þeim hefur tekist að safna. Þar má einnig finna kynningarmyndband þar sem fyrirbærið er útskýrt. 

Mynd/Mailpile
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert