Stýra bíl með hugsunum sínum

Bílar á ferð – Nú er hægt að stýra bílum …
Bílar á ferð – Nú er hægt að stýra bílum með mætti hugans. AFP
Tekist hefur að stýra bíl í Þýskalandi með hugsun einni saman. Ökumaðurinn, Henrik Matzke, sat með hendur í kjöltu og stýrði bílnum að vild með hugsunum sínum. Henrik er í teymi við háskólann Freie Universität Berlin sem vinnur að svokölluðu „heilastýri“ eða Brain Driver.
   
Ætlunin var að rannsaka skynjun og túlkun heilaboða og hvernig hægt sé að nota þau til að þróa tækni til að auðvelda fólki akstur og heimilisstörf. Upprunaleg forsenda verkefnisins var að auðvelda líkamlega fötluðu fólki samgöngur, en teymið hefur einnig þróað svipað hugsanastýrt kerfi fyrir hjólastóla.
   
Verkefnið hefur ekki verið auðvelt. Adalberto Llarena, vísindamaður við verkefnið, sagði að áskoranirnar hafi einkum verið tvær: Vélbúnaðurinn annars vegar og mannlega hliðin hins vegar. Vélbúnaðarmegin þurfti að hanna seljanlegan búnað sem gæti numið boð heilans og breytt þeim í skipanir til að stýra vél. Hvað mannlega þáttinn varðar þurfti að fá fólk til að tileinka sér notkun búnaðarins, segir m.a. í ýtarlegri úttekt BBC um málið.
   
„Heilastýrið“ samanstendur af höfuðbúnaði með 16 nemum sem fylgjast með rafboðum frá heilanum. Sambærilegur búnaður sem er notaður í meðferðarskyni hefur oftast 32 slíka nema en Llarena og teymið vildu hanna búnað sem væri fíngerður, ódýr og óáberandi í notkun. „Okkur finnst sextán nemar sennilega of mikið,“ sagði hann. „Við erum að reyna að losa okkur við helminginn af þeim.“
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert