Venus Express rís á ný

Tölvumynd af Venus Express að nota andrúmsloftið til að hægja …
Tölvumynd af Venus Express að nota andrúmsloftið til að hægja á sér og lækka flugið. ESA

Eftir að hafa eytt undanförnum mánuði í að steypa sér lengra niður í lofthjúp reikistjörnunnar Venusar nota vísindamenn evrópsku geimstofnunarinnar ESA nú dreggjar eldsneytis könnunarfarsins Venus Express til að lyfta því á nýjan leik. 

Venus Express hefur verið á sporbaug um Venus frá árinu 2006. Braut farsins var í allt frá 66.000 kílómetra hæð við suðurpól reikistjörnunnar niður í aðeins 250 kílómetra hæð við norðurpólinn. Þegar eldsneytið var nánast á þrotum ákváðu vísindamenn að láta farið hætta sér neðar í þrúgandi aðstæðurnar í lofthjúpnum. Neðsti punktur brautar farsins hefur því undanfarinn mánuð verið í um 130 kílómetra hæð yfir yfirborði Venusar.

„Við höfum kannað óþekkt svæði og dýft okkur neðar í andrúmsloftið en nokkurn tímann áður,“ segir Håkan Svedhem frá ESA.

Lágflug Venus Express nýtist vísindamönnunum meðal annars til að mæla hvaða áhrif loftmótstaðan á mismunandi dýpt í lofthjúpnum hefur á geimfarið. Talið er að munurinn á loftþrýstingnum í 130 kílómetra hæð yfir yfirborðinu og í 165 kílómetra hæð sé um þúsundfaldur. Það olli mikilli hitaaukningu á geimfarinu. Þessi reynsla mun nýtast vísindamönnum við hönnun á tækjum í könnunarför framtíðarinnar. 

Næstu fimmtán daga mun Venus Express hægt og bítandi breyta sporbraut sinni svo það svífi ofar í lofthjúpnum. Að þeim tíma liðnum verður lægsti punktur sporbrautarinnar í um 450 kílómetra hæð yfir yfirborðinu. Það er að því gefnu að eldsneytið endist nógu lengi til að koma því þangað.

Þegar könnunarfarið verður komið á hærri sporbraut verður því leyft að renna sitt skeið endanlega. Það mun enda ævi sína með því að steypast niður í ógnvænlegan faðm Venusar og brenna þar upp.

„Við höfum þegar öðlast dýrmæta reynslu í að stjórna geimfari við þessar krefjandi aðstæður sem verður mikilvægt í leiðöngrum framtíðarinnar sem gætu krafist hennar. Þegar við höfum lokið við að hækka brautina hlökkum við til að fara í gegnum og greina gögnin sem við höfum safnað úr andrúmsloftinu,“ segir Patrick Martin, leiðangursstjóri Venus Express.

Frétt á vef evrópsku geimstofnunarinnar ESA

Fyrri frétt mbl.is: Undirbúa flug niður til helvítis

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert