Grátlega nærri mjúkri lendingu

Falcon 9-eldflaug SpaceX skömmu eftir að henni var skotið á …
Falcon 9-eldflaug SpaceX skömmu eftir að henni var skotið á loft á þriðjudag. Ekki tókst að lenda fyrsta stigi hennar eins og fyrirtækið stefndi á að gera. AFP

SpaceX, geimferðafyrirtæki athafnamannsins Elon Musk, hefur birt myndskeið í háskerpu af síðustu tilraun fyrirtækisins til þess að lenda fyrsta stigi eldflaugar á pramma í Atlantshafi. Eldflaugin lenti of harkalega og sprakk en á myndbandinu sést hversu grátlega nærri því hún var að lenda örugglega.

Falcon 9-eldflaug SpaceX skaut hylki með birgðum upp til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar á þriðjudag. Fyrirtækið ætlar sér að draga úr kostnaði við slík geimskot með því að endurnýta fyrsta stig eldflaugarinnar sem hefur hingað til verið einnota og hrapar til jarðar eftir að hann er skilinn frá seinni stigum eldflaugarinnar.

Tilraunir SpaceX til að lenda fyrsta stigi eldflauga sinna á þartilgerðum lendingarpramma hafa ekki tekist ennþá en á meðfylgjandi myndbandi má sjá að það virðist nálgast þetta markmið sitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert